Á árinu 2020 nam útflutningsverðmæti sjávarafurða um 270 milljarða króna sem er tæplega 44% af heildarvöruútflutningi landsins, en hann var 620 milljarðar króna í fyrra. Sjávarútvegur hefur þannig skipað sér sess sem ein helsta útflutningsgrein landsins á tímum kórónuveirufaraldursins.
Um er að ræða 4% aukningu í útflutningsverðmætum sjávarafurða frá 2019 í krónum talið, en tæplega 7% samdrátt ef tekið er tillit til gengisbreytinga, að því er fram kemur á Radarnum.
Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða nam 29 milljörðum í fyrra og ef því er bætt við útflutningsverðmæti sjávarafurða verður samanlögð hlutdeild fiskafurða í vöruútflutningi Íslands í fyrra 48%.
Desember var góður fyrir sjávarafurðirnar og nam útflutningsverðmæti þeirra 23,2 milljörðum króna þann mánuðinn. Það er 37% meiri útflutningur sjávarafurða en í desember 2019 í krónum en 24% aukning í erlendri mynt.