Árið 2020 var heldur betur gott hjá áhöfninni á línubátnum Sighvati GK 57 en hann varð aflahæsti línubátur landsins á árinu sem leið með 4.396,2 tonna afla í 43 löndunum og var því meðalafli Sighvats 102,2 tonn. Samanlagður afli línubátanna var um 35,5 þúsund tonn, að því er fram kemur á vef Aflafrétta.
Það er óhætt að segja að línuveiðar voru hagstæðar fyrir Grindvíkinga en Jóhanna Gísladóttir GK 557 var með næst mesta afla og nam hann 4.068,3 tonn í fyrra í 46 löndunum og var meðalafli 88,4 tonn. Þriðja sætið vermir síðan Fjölnir GK 157 með 3.912,4 tonn í 44 löndunum og 88,9 tonna meðalafla.
Alls eru Grindvíkingar með fimm báta meðal tíu aflamestu línubáta 2020.
Tjaldur SH 270 varð í fjórða sæti með 3.467,6 tonn í 54 löndunum, þar á eftir nýi Páll Jónsson GK 7 með 3.244,3 tonn í 40 löndunum og síðan Örvar SH 777 með 2.937,7 tonn í 49 löndunum.
Afli Rifsnes SH 44 nam 2.681,6 tonnum í 47 löndunum, Hörður Björnsson ÞH 260 varð í áttunda sæti með 2.386,7 tonn í 39 löndunum, Núpur BA 69 fylgir þétt á eftir með 2.351,1 tonn í 59 löndunum og í tíunda sæti má finna Hrafn GK 111 með 2.113,5 tonn í 28 löndunum.