Stærsti plastbátur landsins, Bárður SH 81, hefur heldur betur sannað sig og heldur áfram að sýna framúrskarandi aflabrögð og var aflamesti netabátur í fyrra með 2.426,1 tonna heildarafla í 114 löndunum og nam því meðalafli 21,2 tonnum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í samantekt Aflafrétta.
Eflaust sáu margir það fyrir að Bárður yrði aflamestur, en í maí í fyrra var sagt frá því að Bárður hefði líklega sett nýtt Íslandsmet netabáts á síðustu vetrarvertíð eftir að hafa náð 2.311 tonna afla.
Á eftir Bárði fylgir Langanes GK með 1.14,2 tonn í 133 löndunum, svo Erling KE með 1.406,6 tonn í 80 löndunum, í fjórða sæti er Kap II VE með 1.354,4 tonn í 33 löndunum og í fimmta Þórsnes SH með 1.242,5 tonn í 21 löndun.