Óheimilt er að skipta á aflaheimildum í þorski innan krókaaflamarkskerfisins og loðnukvóta samkvæmt reglugerð sem birt var á vef Stjórnartíðinda í gær, en stutt er síðan Fiskistofa samþykkti tilboð þar sem 1.066 tonn af loðnu fengust í skipti fyrir 732 tonn af þorski.
Landssamband smábátaeigenda vakti nýverið athygli á skiptunum og sagði í færslu á vef landssambandsins 16. febrúar merkilegt að hægt væri að færa loðnu á krókaaflamarksbát enda sé honum aðeins heimilt að stunda veiðar með línu og handfærum og því ógerlegt fyrir áhöfn á slíkum báti að veiða loðnu.
Hafa samtökin talið þetta leið til að koma aflaheimildum í þorski úr krókaaflamarkskerfinu. Þá segir að skiptahlutfallið „0,687 sýnir að loðnan er afar dýrmæt um þessar stundir þar sem ígildastuðull hennar var 0,13 á fiskveiðiárinu 2019/2020“.
Vakti Landssambandið einnig athygli á því að veiðigjald fyrir hvert kíló af lönduðum þorski á þessu ári er 16,63 krónur á kíló, en á loðnu var það á síðasta ári 32 aurar. Ekki hefur verið gefið út veiðigjald fyrir loðnu á yfirstandandi vertíð, en ljóst er að það er mikill munur milli álagningar uppsjávarskipa og þeirra sem stunda aðrar veiðar.
Landssamband smábátaeigenda kveðst hafa gert athugasemd við að Fiskistofa hafi samþykkt tilboðið um skiptin. „Fiskistofa túlkaði tilboðið þannig að ekki væri ákvæði í reglugerð sem bannaði að því yrði tekið né að loðnan væri flutt yfir á krókaaflamarksbátinn. Að lokinni þeirri færslu var loðnan flutt yfir á uppsjávarskip.“
Jafnframt segist sambandið hafa komið athugasemdum sínum til Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á málinu og hefur ráðherra nú undirritað reglugerð sem tekur fyrir skipti af þessum toga. Telja smábátaeigendur ráðherra hafa „komið í veg fyrir að framhald verði á slíku útstreymi þorsks úr krókaaflamarkskerfinu.“