Í lokaskýrslu Rannsóknanefndar samgönguslysa, siglingasviðs, kemur fram að réttindalaus skipverji var við stjórn fiskibátsins Einars Guðnasonar ÍS 303 þegar báturinn strandaði við Gölt að kvöldi 13. nóvember 2019. Hann var vanur sjómaður og hafði verið um einn mánuð á bátnum.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að ákæra var gefin út á hendur skipstjóranum fyrir að fela réttindalausum skipverja stjórn bátsins.
Báturinn hafði verið á línuveiðum og var á leiðinni til hafnar á Suðureyri þegar hann strandaði. Tveir björgunarbátar ásamt fiskibát fóru á strandstað en gátu hvorki athafnað sig né bjargað áhöfninni vegna brims í fjörunni. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði áhöfninni og var farið með hana til Ísafjarðar. Báturinn eyðilagðist við strandið og í fjörunni og nokkrum dögum síðar voru flest ummerki eftir hann horfin.
Fram kemur í skýrslu RNSA að báturinn hafði lagt í veiðiferðina um hádegi daginn áður og hafði verið í um 34 klukkutíma í ferðinni.
Norðureyri ehf. á Suðureyri gerði bátinn út og var fyrir nokkru fjárfest í nýjum Einari Guðnasyni. Til þess að brúa bilið á milli þess að nýr bátur sigldi í höfn festi Norðureyri kaup á Von, þá GK og nú ÍS.
Var farið í fyrsta róður á nýjum Einari Guðnasyni í janúar og hafa aflabrögð verið með ágætum.