Gæði og vöruþróun skapa forskotið

Hjörtur Erlendsson og Jón Oddur Davíðsson í einni af starfsstöðvum …
Hjörtur Erlendsson og Jón Oddur Davíðsson í einni af starfsstöðvum Hampiðjunnar. Þær eru nú orðnar 44 talsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsemi Hampiðjunnar er í stöðugri þróun og þökk sé ríkri áherslu á vöruþróun og vöxt styrkist staða samsteypunnar ár frá ári. Teygir starfsemin sig núna allt frá fiskveiðiþorpinu Dutch Harbour vestast í Alaska og í austur yfir til bæjanna Timaru og Nelson á Nýja-Sjálandi. Fyrirtækin innan samsteypunnar eru 28 talsins í 15 löndum með 44 starfsstöðvar og vöruframboðið mætir m.a. þörfum sjávarútvegs, fiskeldis og hvers kyns framkvæmda á hafi úti.

Nýlega var stofnað nýtt dótturfélag, Hampiðjan Offshore, sem þjónustar t.d. orkuiðnað á hafi úti. Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, segir mega rekja sókn félagsins inn á þetta svið til ársins 1986 þegar ofurtógið leit dagsins ljós. „Ofurtógið er léttara en vatn en sterkara en stál og hentar vel sem styrktarlínur í troll og önnur veiðarfæri. Árið 1995 byrjuðum við að selja olíuiðnaðinum ofurtóg, einkum til notkunar við olíuleit á hafi úti, en leitin fer þannig fram að skip draga á eftir sér miklar hljóðnemalengjur sem geta jafnvel verið allt upp í 10 km á lengd. Reyndist ofurtógið henta mun betur en stálvír í þessar lengjur enda miklu léttara,“ segir Hjörtur.

Ofurtogsstroffur er meðal búnaðar sem er seldur olíuiðnaði.
Ofurtogsstroffur er meðal búnaðar sem er seldur olíuiðnaði. Ljósmynd/Aðsend

„Síðan þá höfum við orðið sífellt sterkari á þessu sviði, þróað og framleitt nýjar vörur svo að úr varð sérstök deild innan Hampiðjunnar. Á síðasta ári töldum við að nauðsynlegt væri orðið að setja þessa starfsemi í sjálfstætt félag, bæði til að veita stjórnendum deildarinnar meira sjálfstæði í ákvarðanatöku og til að gera rekstrarleg skil skýrari, en líkt og önnur félög samsteypunnar mun Hampiðjan Offshore t.d. skila mánaðarlegum rekstrartölum til móðurfélagsins.“

Ómissandi við uppsetningu vindmylla

Á síðasta ári myndaði starfsemi Hampiðjunnar Offshore u.þ.b. 4% af heildarveltu samsteypunnar en Hjörtur segir áhugaverð vaxtartækifæri fyrir hendi. Vegna lækkunar olíuverðs hafi dregið úr olíuleit en í staðinn hafi orðið mikill vöxtur í uppsetningu vindmylla á hafi úti og þar komi ofurtógið í góðar þarfir.

„Oft skipta vindmyllurnar mörgum hundruðum í þessum vindmyllugörðum en það fyrsta sem þarf að gera áður en vindmylla er reist er að undirbúa botnlagið með því að reka niður staura. Fara fjórir staurar undir hverja vindmyllu og er hver þeirra bankaður niður í sjávarbotninn með slaghamri sem hangir í krana. Hamarstykkið í slaghamrinum hangir úr stroffu sem er gerð úr þessu ofurefni sem ofurtógið er og hentar miklu betur en stálvír. Er tógið svo létt í meðförum að tveir menn eiga að geta tekið það í fangið og borið til og frá ef þarf t.d. að skipta um tóg,“ útskýrir Hjörtur, en ofurtógið er líka heppilegt fyrir flutninga á súlum og vindmylluspöðum. „Byggingareiningar vindmyllanna eru gerðar ýmist úr áli eða stáli og verður að gæta þess að yfirborð þeirra rispist ekki í flutningum, því annars er von á mikilli tæringu úti á sjó, og hægt að gera mjúka en sterka stroffu úr ofurtógi sem rispar ekki yfirborðið.“

Ljósmynd/Aðsend

Þá er ofurtógið ómissandi við hvers kyns djúpsjávarvinnu- og rannsóknir. Hjörtur segir stálvíra m.a. hafa þann ókost að þeir ná ekki lengra en 6 km niður í sjó áður en þeir slitna undan eigin þyngd. Ofurtóg Hampiðjunnar nær niður á allt að 12 km dýpri en til samanburðar er dýpsti punktur jarðar, Challenger Deep í Kyrrahafinu, röskum 11 kílómetrum undir sjávarmáli. „Þar sem olía finnst á sjávarbotni þarf að setja upp alls konar búnað við borholuna og er nánast eins og verksmiðja neðansjávar. Eru sumir partarnir um 2-300 tonn að þyngd og þarf því mjög sterkar línur til að láta búnaðinn síga niður. En þegar verið er að koma búnaðinum fyrir lyftist skipið sem verið er að nota upp og niður í takt við ölduganginn og þarf að nota sérútbúna krana sem bæði hífa og slaka í takt við hreyfingu öldunnar. Við þetta skapast mikill hiti í línunni og erum við núna að þróa vindu- og kranatóg sem er sérstaklega hita- og beygjuþolið fyrir svona notkun.“

Ljósleiðarabylting í vændum

Gott er að heyra að kórónuveirufaraldurinn olli ekki mikilli röskun á starfsemi Hampiðjunnar. Var velta samstæðunnar sú sama árið 2020 og 2019 og segir Hjörtur að um allan heim hafi verið reynt að tryggja að sem minnst röskun yrði á fiskveiðum í faraldrinum.

Samkeppnin er hörð en Hampiðjan stendur vel að vígi. „Við etjum kappi við nokkur stór fyrirtæki sem framleiða svipaða vöru en erum væntanlega í dag stærsti veiðarfæraframleiðandi heims. Eru það gæðin og vöruþróunin sem veitir okkur samkeppnisforskot og þykja trollin okkar þau tæknilega fullkomnustu sem völ er á.“

Upplýsir Hjörtur að vöruþróun og rannsóknum sé svo vel sinnt hjá Hampiðjunni að félagið er með sérstaka deild mannaða sérfræðingum í hugverkarétti sem hafa það hlutverk að halda utan um einkaleyfismál á heimsvísu.

DynIce Optical Data-kapall.
DynIce Optical Data-kapall. Ljósmynd/Aðsend

Af þeim nýjungum sem Hjörtur bindur hvað mestar vonir við er vara sem sameinar eiginleika tógs og gagnaflutningsgetu ljósleiðara. Hampiðjan kynnti DynIce Optical Data-kapalinn til sögunnar árið 2019 og að undanförnu hefur hann verið prófaður um borð í Beiti NK, skipi Síldarvinnslunnar. „Það sem við höfum lært er að kapalvindurnar sem draga inn höfuðlínukapalinn henta ekki fyrir tóg sem hefur að geyma brothættan ljósleiðara og því er næsta skref að hanna betri vindur. Við erum með mjög spennandi vöru í höndunum en þurfum að skapa rétta útbúnaðinn til að nota megi vöruna sem skyldi.“

Samstarfsaðili Hampiðjunnar vinnur að þróun flokkunartækis sem í framtíðinni yrði hluti af veiðarfærum skipa, og myndi greina aflann í rauntíma og sleppa t.d. smáfiski eða meðafla. Segir Hjörtur að þegar þessi tækni verður komin í almenna notkun muni það marka kaflaskil í botnfiskveiðum. „Fiskurinn er myndaður í trollinu bæði ofan frá og frá hlið og upplýsingarnar sendar upp í skip gegnum ljósleiðarann þar sem tölva þyngdar- og tegundargreinir fiskinn. Á sama augnabliki tekur tölvan ákvörðun um hvort fiskurinn eigi að halda áfram leið sinni inn í trollið eða vera sleppt og gerist þetta svo hratt að fiskurinn er enn fyrir framan myndopið.“

Heppin að njóta stuðnings greinarinnar

Þjónusta við íslenskan sjávarútveg og rekstur netaverkstæða í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Akureyri og Ísafirði er í höndum dótturfélagsins Hampiðjan Ísland ehf. og er Jón Oddur Davíðsson þar framkvæmdastjóri.

Hann segir starfsemina hafa gengið nokkuð vel á liðnu ári. Loðnuleysi hafi þó haft áhrif á tekjur félagsins og eins hafi kórónuveirufaraldurinn torveldað prófanir á nýju kolmunnatrolli. „Að hanna ný veiðarfæri er langt ferli sem m.a. felur í sér prófanir í sérstökum tanki í Danmörku auk tilrauna í samvinnu við útgerðir,“ útskýrir Jón Oddur. „Faraldurinn tafði þetta allt saman og þar sem veiðar á kolmunna eru bundnar við tiltekinn árstíma misstum við af þeim glugga sem við hefðum viljað nota til að sjá hvernig trollin reynast við veiðar.“

Unnið við troll á Skarfabakka.
Unnið við troll á Skarfabakka. Ljósmynd/Aðsend

Það var Beitir NK sem tók að sér fyrstu prufuveiðar með nýja trollinu í janúar síðastliðnum. Segir Jón Oddur að reynslan af veiðarfærunum lofi góðu; að trollið virðist smala vel og skila því sem kemur inn aftur í poka. Hann bendir á að velgengni Hampiðjunnar megi einmitt ekki síst þakka hve viljug íslensk útgerðarfyrirtæki og skipstjórar hafa verið að aðstoða við þróunarstarfið. Hafa félög á borð við Brim, Samherja og Síldarvinnsluna verið þar fremst í flokki og oft þurft að kosta miklu til. „Það er alls ekki sjálfgefið að tilraunirnar gangi alltaf að óskum. Þegar útgerðir leggja okkur lið eru þær að leggja mikið að veði, viðbótarálag á öllum sem að veiðunum koma, og ljóst að við erum ótrúlega heppin að njóta þessa stuðnings frá greininni.“

Einnig er verið að þróa sterkari kolmunnapoka sem vonir eru bundnar við að henti vel fyrir veiðar norður af Írlandi. „Þar geta veður verið vond en að sama skapi má vænta þess að mikið komi af fiski í trollið. Þessar aðstæður kalla á sterkbyggð veiðarfæri enda álagið mikið,“ segir Jón Oddur.

Hampiðjan Ísland ehf. sinnir líka viðskiptavinum í Rússlandi og segir Jón Oddur að þar hafi faraldurinn valdið meiri flækjum en á Íslandi. Varð þannig töluverð röskun á sölu á rússneskum fiski af austurströndinni í gegnum borgina Búsan í Suður-Kóreu, þaðan sem hefðbundnar flutningaleiðir liggja. „Það þýddi að viðskiptin færðust meira inn á innanlandsmarkað og hefðbundnar viðskiptaleiðir urðu miklu flóknari.“

Allt annað líf í Neskaupstað

Þá er það að frétta úr rekstrinum að í febrúar í fyrra var tekið í notkun nýtt og fullkomið veiðarfæraverkstæði í Neskaupstað. Hampiðjan, áður Fjarðanet, hefur lengi verið með netaverkstæði þar í bæ en húsnæðið var komið til ára sinna og segir Jón Oddur að umgjörðin sé allt önnur á nýja staðnum.

Nýja netaverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað.
Nýja netaverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað. Ljósmynd/Aðsend

„Vinnuaðstaðan er miklu betri og húsið vel búið tækjum. Vinnusvæðið er miklu stærra og því hægt að breiða veiðarfærin út á einu stóru gólfi í stað þess að vera á þremur hæðum. Margar blakkir eru í loftinu og því auðvelt að færa þau til og frá meðan á viðgerð stendur, sem flýtir fyrir vinnunni. Mun auðveldara er að þjónusta skip sem geta lagst fyrir utan hjá okkur. Veiðarfæri eru tekin í land og sett um borð með mun skjótari hætti. Loks fjárfestum við í vírastrekkitæki og bættum þannig við þeirri nýju þjónustu í Neskaupstað að geta spólað vírum um borð í skip undir átaki. Húsnæðið felur í sér algjöra byltingu í þjónustu okkar við viðskiptavini. Á næstu vikum munum við svo opna verslun með útgerðarvörur og lyftibúnað í húsnæði okkar að Skarfagörðum í Reykjavík.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðrún Petrína HU 107 Grásleppunet
Grásleppa 1.141 kg
Þorskur 83 kg
Samtals 1.224 kg
19.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 343 kg
Ýsa 113 kg
Karfi 7 kg
Samtals 463 kg
19.4.24 Sunna Líf GK 61 Grásleppunet
Grásleppa 345 kg
Samtals 345 kg
19.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 769 kg
Ýsa 14 kg
Skarkoli 2 kg
Samtals 785 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðrún Petrína HU 107 Grásleppunet
Grásleppa 1.141 kg
Þorskur 83 kg
Samtals 1.224 kg
19.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 343 kg
Ýsa 113 kg
Karfi 7 kg
Samtals 463 kg
19.4.24 Sunna Líf GK 61 Grásleppunet
Grásleppa 345 kg
Samtals 345 kg
19.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 769 kg
Ýsa 14 kg
Skarkoli 2 kg
Samtals 785 kg

Skoða allar landanir »