Sjómannadagurinn aftur með breyttu sniði

Frá fiskasýningu Hafrannsóknarstofnunar á Háabakka í Hafnarfirði í dag.
Frá fiskasýningu Hafrannsóknarstofnunar á Háabakka í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

Vegna kórónuveirufaraldursins féll sjómannadagurinn niður fyrir ári. Þetta árið eru sóttvarnaaðgerðir ekki eins strangar en engu að síður hafa hátíðarhöldin í Reykjavík og Hafnarfirði það sem af er degi ekki verið með hefðbundnu sniði. Til dæmis var engin dagskrá í boði við höfnina í dag. 

Fiskar skoðaðir í Hafnarfirði.
Fiskar skoðaðir í Hafnarfirði. mbl.is/Sigurður Unnar

Hálfdan Henrysson er formaður sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins sem heldur utan um hátíðardagskrána í Reykjavík og Hafnarfirði. „Við megum ekki hafa mikinn mannfjölda samankominn á einum stað og því verður ekki hefðbundin skemmtidagskrá úti á Grandagarði við Reykjavíkurhöfn né við Hafnarfjarðarhöfn. Aftur á móti verða haldnir minni viðburðir og athafnir í samræmi við fjöldatakmarkanir,“ útskýrði Hálfdan fyrir helgi og þótti miður að dagskráin þyrfti að vera með breyttu sniði enn eina ferðina. „Sjómannadagurinn hefur vaxið mjög að vinsældum á síðustu árum og er það m.a. að þakka góðu framlagi Faxaflóahafna og Brims, áður Granda, sem hafa reynst mjög öflugir samstarfsaðilar. Upp á síðkastið höfum við fengið upp undir 40.000 manns í heimsókn út á Granda og einnig mikinn fjölda gesta á hátíðahöldin við Hafnarfjarðarhöfn.“

mbl.is/Sigurður Unnar

Verður að bíða til næsta sumars eftir skemmtikröftunum, sölutjöldunum og furðufiskunum sem venjan er að hafa til sýnis á bryggjunni. Hins vegar ætlaði sjómannadagsnefnd að veita heiðursmerki fyrir sjósókn í samræmi við gamla hefð, við fámenna athöfn í dag og í morgun  var haldin minningarathöfn við Minningaröldurnar svokölluðu í Fossvogskirkjugarði. „Þar njótum við að vanda aðstoðar Landhelgisgæslunnar sem stendur heiðursvörð og leggur krans að minnismerkinu. Vill svo skemmtilega til að franskt herskip verður statt í höfn á sjómannadaginn og sendir hóp skipverja til að standa heiðursvörð við hlið landhelgisgæsluliða.“

Forseti Íslands var viðstaddur minningarathöfn sjómannadagsráðs við Fossvogskapellu í morgun.
Forseti Íslands var viðstaddur minningarathöfn sjómannadagsráðs við Fossvogskapellu í morgun. mbl.is/Sigurður Unnar

Mikið meira en bara hátíð

Starfsemi sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins er umfangsmikil og hátíðahöld sjómannadagsins aðeins lítill hluti af starfinu. Vitaskuld fer heilmikið púður í undirbúning sjómannadagsins í venjulegu árferði enda mikill metnaður lagður í að bjóða almenningi upp á alls kyns afþreyingu og skemmtun en undir sjómannadagsráð heyra líka átta dvalarheimili fyrir aldraða, Happdrætti DAS og Laugarásbíó.

„Til að ráða betur við öll þessi verkefni var afráðið fyrir nokkrum árum að leigja út rekstur Laugarásbíós. Þá á ráðið jörðina Hraunkot austur í Grímsnesi þar sem starfrækt var barnaheimili, félagsheimili og sumarbústaðir en fyrir hálfu öðru ári seldum við góðu fólki þann rekstur sem hefur aðlagað hann betur nútímaferðaþjónustu, en sjómannadagsráð á enn jörðina sjálfa,“ útskýrir Hálfdan og bætir við að samtals starfi um tvö þúsund manns hjá sjómannadagsráði og undirfélögum þess.

Frá minningarathöfninni í Fossvogskirkjugarði.
Frá minningarathöfninni í Fossvogskirkjugarði. mbl.is/Sigurður Unnar

Sögu sjómannadagsins má rekja allt aftur til ársins 1929. „Sagan segir að sá gamli togari Hafstein hafi verið við veiðar á Halamiðunum, lítið fiskirí en veðrið gott. Þar sem togarinn vaggaði í rólegheitunum í morgunsárinu kom loftskeytamaðurinn Henry A. Hálfdansson fram í brúna og hélt þar mikla ræðu fyrir stýrimann á vakt og lýsti því hvernig hann sæi fyrir sér að halda sérstakan minningardag um sjómenn til að auka veg og virðingu stéttarinnar og auka skilning þjóðarinnar á þessu áhættusama starfi,“ útskýrir Hálfdan.

Blómsveigur var lagður að minningarreit um látna sjómenn.
Blómsveigur var lagður að minningarreit um látna sjómenn. mbl.is/Sigurður Unnar

Til að gera langa sögu stutta var þessi sami loftskeytamaður kosinn formaður Félags íslenskra loftskeytamanna nokkrum árum síðar og árið 1936 sendi hann öðrum samtökum sjómanna bréf þar sem hann útlistaði hugmyndir sínar. Erindið fékk góðar viðtökur og var sjómannadagurinn fyrst haldinn hátíðlegur árið 1938. „Ári seinna var sett á stofn sérstök stefnuskrárnefnd til að vinna enn frekar að hagsmunum sjómanna og kvað stefnuskrá ráðsins á um að bæði tryggja að sjómannadagurinn yrði haldinn hátíðlegur ár hvert og líka að reist yrði davlarheimili fyrir aldraða sjómenn,“ segir Hálfdan. Sjómannadagsráð ætlaði líka að reisa minningarstyttu um látna sjómenn við Reykjavíkurhöfn, en úr því varð aldrei því sumum þótti ekki rétt að sjómenn reistu minnisvarða um sig sjálfa. Þess í stað fór allur krafturinn í að safna fyrir byggingu dvalarheimilis.“

mbl.is/Sigurður Unnar

Þar með upphófst mjög líflegt tímabil í skemmtanalífi höfuðborgarbúa því sjómenn voru djarfir, frumlegir og uppátækjasamir í fjáröflunartilraunum sínum. Ráku þeir m.a. dýragarð í Örfirsey, þar sem hægt var að sjá apa og ísbirni sem ekki fengu landvistarleyfi – eins og Hálfdan orðar það. Eins fengu þeir sæljón í garðinn og þá efndu þeir reglulega til feikivinsælla kabarett-sýninga í Austurbæjarbíói. „En mikil verðbólga á þessum tíma varð til þess að það fé sem safnaðist rýrnaði hratt að virði. Sjómannadagsráð leitaði því aðstoðar ríkisstjórnarinnar og tókst að fá að láni fé sem nýtt var bæði til byggingar hafnar á Húsavík og til að byggja Sólvang í Hafnarfirði. Fyrsta skóflustungn að Hrafnistu var tekin árið 1951 og húsnæðið tekið í notkun 1957. Árið 1954 fékk ráðið leyfi til að stofna happdrætti, og naut þar mikils velvilja Ólafs Thors en honum var síðar veitt fyrsta gullmerki Sjómannadagsráðs.“

mbl.is/Sigurður Unnar

Lífleg fjölskylduhátíð

Í áranna rás hefur yfirbragð sjómannadagsins tekið breytingum. Lengi vel var dagurinn ekki síst helgaður minningu þeirra sem létu lífið við að sækja sjóinn og segir Hálfdan að þegar sjómannadagsráð var stofnað hafi verið algengt að um 30 til 40 sjómenn færust ár hvert. Blessunarlega hefur starfsumhverfi sjómanna batnað til muna og þó að starfið sé hættulegt þá eru dauðsföll við fiskveiðar fátíð. Í takt við þessa þróun hafa hátíðahöld og skemmtiatriði fengið æ meira vægi í dagskrá sjómannadagsins. „Sjómannadagurinn er í dag lífleg fjölskylduhátíð sem eykur samhug meðal hinna ýmsu starfsgreina sem koma að fiskveiðum og minnir þjóðina alla á hve miklu máli sjósókn skiptir fyrir þjóðarhag.“

Greiðslur til hjúkrunarheimila of lágar

Spurður um þær áskoranir sem sjómenn og sjávarútvegur standa frammi fyrir segir Hálfdan að það hafi frá upphafi verið stefna sjómannadagsráðs að hafa engin afskipti af pólítík né kjaramálum. Hins vegar megi nefna að hjúkrunarheimilin sem ráðið starfrækir glími við þann vanda að greiðslur ríkisins til málaflokksins eru of lágar. „Að undanförnu höfum við séð mörg dæmi þess að hjúkrunarheimili sem rekin hafa verið samkvæmt samningi við ríkið hafa verið að skila rekstrinum aftur til hins opinbera vegna bágrar rekstrarstöðu. Framlög með hverjum íbúa hafa dregist saman undanfarin ár og höfum við þurft að hafa mikið fyrir því að halda okkur réttum megin við núllið, og auðveldara fyrir okkur en marga aðra þar eð okkar rekstur er ekki hagnaðardrifinn.“

Segir Hálfdan ljóst að hjúkrunarheimilin í landinu séu upp til hópa vel rekin. „Heilbrigðisráðherra lét Gylfa Magnússon prófessor gera ítarlega úttekt á málaflokknum og var niðurstaðan af þeirri vinnu einfaldlega sú að sú upphæð sem fylgir með hverjum skjólstæðingi er allt of lág.“

Húni ásamt hinum bátunum.
Húni ásamt hinum bátunum. mbl.is/Þorgeir

14 bátar sigldu með Húna 

Sjómannadagurinn á Akureyri var einnig með breyttu sniði í ár. Í dag sigldu 14 bátar með Húna II EA í broddi fylkingar úr Sandgerðisbót og inn á Pollinn. Eftir það ætlaði Húni að sigla tvær ferðir með farþega í dag.

Húni II EA.
Húni II EA. mbl.is/Þorgeir

Veðrið hefur verið gott fyrir norðan það sem af er degi, 17 stiga hiti, sól og hægur sunnan andvari.

mbl.is/Þorgeir

Helgistund í Húsavíkurkirkju

Helgistund var haldin í Húsavíkurkirkju í morgun í tilefni sjómannadagsins. Að henni lokið var færður blómsveigur að minnismerki um látna sjómenn sem er á lóðinni við Húsavíkurkirkju.

Guðbergur R. Ægisson, meðhjálpari við Húsavíkurkirkju, sá um að leggja blómsveiginn að minnismerkinu og Sr. Halla Sólveig Kristjánsdóttir las upp ljóð Bjargar Pétursdóttur, Til sjómanna.

mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Kirkjukórinn söng síðan Vikivaki í sumarblíðunni og um undirleik sá Szebik Attila organisti og kórstjóri.

mbl.is/Hafþór Hreiðarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðrún Petrína HU 107 Grásleppunet
Grásleppa 1.141 kg
Þorskur 83 kg
Samtals 1.224 kg
19.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 343 kg
Ýsa 113 kg
Karfi 7 kg
Samtals 463 kg
19.4.24 Sunna Líf GK 61 Grásleppunet
Grásleppa 345 kg
Samtals 345 kg
19.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 769 kg
Ýsa 14 kg
Skarkoli 2 kg
Samtals 785 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðrún Petrína HU 107 Grásleppunet
Grásleppa 1.141 kg
Þorskur 83 kg
Samtals 1.224 kg
19.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 343 kg
Ýsa 113 kg
Karfi 7 kg
Samtals 463 kg
19.4.24 Sunna Líf GK 61 Grásleppunet
Grásleppa 345 kg
Samtals 345 kg
19.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 769 kg
Ýsa 14 kg
Skarkoli 2 kg
Samtals 785 kg

Skoða allar landanir »