Lítið aðhafst vegna nauðungarvinnu sjómanna

Sjómenn í Jakarta á Indónesíu mótmæla fyrir utan kínverska sendiráðið …
Sjómenn í Jakarta á Indónesíu mótmæla fyrir utan kínverska sendiráðið í kjölfar dauða fjögurra samlanda þeirra. Nauðungarvinna er talin útbreidd í kínverska flotanum. AFP

Er hægt að að banna innflutning á sjávarafurðum frá fyrirtækjum sem beita vinnuþrælkun í veiðum og vinnslu? Bandarísk yfirvöld telja svo vera og hafa í áratug haft lagaheimild til þess. Evrópusambandið er enn að meta aðferðir, á meðan flytja aðildarríki inn afurðir frá ríkjum þar sem vinnuþrælkun er þekkt vandamál. Ísland hefur enn ekki innleitt alþjóðasáttmála um vinnu við fiskveiðar.

Þann 28. maí tilkynnti Alejandro N. Mayorkas, ráðherra heimavarnamála Bandaríkjanna, að toll- og landamærastofnun Bandaríkjanna (e. U.S. Customs and Border Protection) myndi gefa út skipun þess efnis að engum sjávarafurðum frá kínverska fyrirtækinu Dalian Ocean Fishing Company yrði hleypt inn í landið. Kínverska fyrirtækið er meðal stærstu útgerðarfyrirtækja Kína og sérhæfir sig í túnfiskveiðum og vinnslu.

Þá segja bandarísk yfirvöld að rannsókn hafi leitt í ljós að tilhögun veiða fyrirtækisins beri öll ellefu merki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um vinnuþrælkun og er sérstaklega nefnt líkamlegt ofbeldi, neitun um greiðslu launa og ómannúðlegt vinnuumhverfi og ófullnægjandi aðbúnaður. Á þetta við allan flota fyrirtækisins.

Alejandro N. Mayorkas.
Alejandro N. Mayorkas. AFP

„Fyrirtæki sem misnota vinnandi fólk eiga ekki að vera í viðskiptum í Bandaríkjunum. [...] Vörur sem verða til við vinnuþrælkun eru ekki aðeins slæmar fyrir fólkið sem vinnur vörurnar, heldur skaðar það einnig bandarísk fyrirtæki og gerir neytendur berskjaldaða fyrir ósiðlegum viðskiptum. Þessi fyrirmæli um stöðvun vöruflutninga [frá Dalian Fishing Company] munu tryggja að við höldum áfram að vernda mannréttindi þeirra sem starfa við úthafsveiðar, en jafnframt standa vörð um þjóðar- og efnahagslegt öryggi okkar,“ sagði Mayorkas við tilefnið.

Lagaheimildin sem beitt er gegn kínverska fyrirtækinu var leidd í lög í Bandaríkjunum 2011 og kveður á um að bannað sé að flytja þangað varning sem hefur að fullu eða að hluta verið framleiddur með notkun nauðungarvinnu, vinnuþrælkun eða barnaþrælkun.

Ómennskar aðstæður

Töluvert hefur verið fjallað um vinnuþrælkun um borð í skipum í kínverska fiskveiðiflotanum sem er einn sá stærsti í heimi og telur rúmlega þrjú þúsund skip. Fram kemur í skýrslu vinnumálaráðuneytis Bandaríkjanna (e. Department of Labor) frá í fyrra um þær vörur sem framleiddar eru með vinnu- eða barnaþrælkun að fjöldi atvika hafi verið skráð vegna kínverskra fiskiskipa.

Vakin er athygli á að stór hluti áhafna í kínverskum fiskiskipum er frá öðrum ríkjum og eru flestir frá Filippseyjum og Indónesíu. „Um borð eru skilríki sjómanna oft gerð upptæk, áhöfnin er mánuðum saman á sjó án þess að stoppa í viðkomuhöfn og neyðist til að vinna 18 til 22 tíma á dag með lítilli hvíld. Sjómennirnir kljást við hungur og ofþornun, búa við niðrandi og óheilbrigðar aðstæður, eru beittir líkamlegu og andlegu ofbeldi, þeim er meinað að fara frá borði eða segja starfi sínu upp og fá yfirleitt ekki þau laun sem þeim var lofað,“ segir í skýrslunni.

Filipseyska strandgæslan fylgist með kínverskum skipum á umdeildu svæði í …
Filipseyska strandgæslan fylgist með kínverskum skipum á umdeildu svæði í Suður-Kínahafi. AFP

Kallað eftir aðgerðum

Árið 2019 voru fluttar til Evrópusambandsins ríflega 9 milljónir tonna af sjávarafurðum. Þar er langmest frá Kína. Erfitt er að greina innflutningstölur nákvæmt þar sem töluvert magn af fiski streymir frosinn frá Evrópu til Kína þar sem hann er þíddur, unninn og endurfrystur áður en hann ratar aftur til Evrópu. En sjávarafurðir til Evrópu koma víða að og má í því samhengi til að mynda nefna Víetnam, en þar hafa börn niður í 11 ára aldur verið við vinnu í þarlendum fiskiskipum.

Evrópsk verkalýðsfélög auk útgerða og vinnslna hafa um nokkurt skeið vakið athygli á málinu enda ljóst að bæði eru fyrirtæki að hagnast á siðlausum viðskiptaháttum auk þess sem samkeppnisstaða evrópskra framleiðenda er verulega skert á meðan ekki er tekið á málinu. Í þessu samhengi má meðal annars benda á að íslenskur hvítfiskur keppir á Evrópumarkaði við hvítfisk sem unninn er af verkafólki í kínverskum vinnslum þar sem daglaunin eru rúmlega 300 krónur.

Í maí 2020 kölluðu samtök spænskra túnfiskútgerða (OPAGAC) eftir því að reglum um innflutning á sjávarafurðum frá Kína yrði breytt í ljósi frétta af aðstæðum um borð í kínverskum fiskiskipum. „Evrópa getur ekki haldið áfram að loka augunum fyrir þessum staðreyndum og flutt inn fisk frá þessum flota,“ sagði Julio Morón, framkvæmdastjóri samtakanna, í yfirlýsingu á vef OPAGAC. Benti hann sérstaklega á dauða fjögurra indónesískra sjómanna um borð í kínverska úthafsskipinu Long Xing 629.

Spá í útfærslum

Aðilar vinnumarkaðarins í evrópskum sjávarútvegi gáfu út sameiginlegt ákall í nóvember síðastliðnum til ríkja Evrópusambandsins um innleiðingu alþjóðasáttmálans um vinnu í sjávarútvegi (C188) í samræmi við tilskipun framkvæmdastjórnar sambandsins þess efnis. Aðeins 18 ríki hafa innleitt C188, þar af eru sjö ríki í Evrópusambandinu. Ísland hefur ekki innleitt sáttmálann, en það hafa Norðmenn gert. Til samanburðar hafa 97 ríki innleitt sáttmálann um vinnu um borð í kaupskipum.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ekki lagt fram frumvarp sem heimilar stöðvun …
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ekki lagt fram frumvarp sem heimilar stöðvun innflutnings sjávarafurða sem koma til með nauðungarvinnu. AFP

Þrátt fyrir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi gefið út tilskipun um innleiðingu sáttmálans er engin löggjöf innan sambandsins sem heimilar aðgerðir til að sporna við innflutningi á sjávarafurðum sem verða til við notkun vinnuþrælkunar og því engin viðurlög þó að tilskipunin yrði innleidd. Evrópuþingið óskaði eftir því í febrúar að lagðar yrðu fram tillögur um framkvæmd banns við innflutningi á afurðum sem tengjast nauðungarvinnu, en framkvæmdastjórnin hefur enn sem komið er ekki orðið við þeirri beiðni.

Það er því engin breyting í sjónmáli og halda því sjávarafurðir sem veiddar eru með siðferðislega vafasömum aðferðum, svo ekki sé sterkara tekið til orða, áfram að vera fluttar til Evrópusambandsins, hlutfall þeirra er þó óþekkt.

Ekki á Íslandi

Tilskipun um innleiðingu C188 hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Ekki er heldur að finna í íslenskri löggjöf sambærileg ákvæði og er að finna í Bandaríkjunum um bann við einstökum vörum. Mögulega hefðu slík ákvæði lítið að segja alþjóðlega þar sem Íslendingar flytja ekki mikið inn af sjávarafurðum, en af sömu ástæðu ætti að vera lítið mál að innleiða slíkt ákvæði í íslensk lög.

Það er kannski sérstaklega mikilvægt fyrir þjóð eins og Ísland, sem hefur verið háð sjómannastéttinni og sjávarútvegi um langt skeið, að sýna í verki að nauðungarvinna á sjó verður ekki liðin. Fyrir því eru bæði siðferðisleg og efnahagsleg rök og spurning hvenær íslensk stjórnvöld hyggist marka stefnu í þessum málaflokki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,86 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 191,99 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 122,07 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,06 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Hólmi NS 56 Grásleppunet
Grásleppa 3.357 kg
Þorskur 383 kg
Ýsa 23 kg
Samtals 3.763 kg
25.4.24 Magnús HU 23 Grásleppunet
Grásleppa 3.836 kg
Samtals 3.836 kg
25.4.24 Rún NS 300 Grásleppunet
Grásleppa 1.853 kg
Þorskur 296 kg
Skarkoli 100 kg
Samtals 2.249 kg
25.4.24 Patrekur BA 64 Dragnót
Skarkoli 1.853 kg
Þorskur 271 kg
Sandkoli 102 kg
Ýsa 8 kg
Samtals 2.234 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,86 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 191,99 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 122,07 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,06 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Hólmi NS 56 Grásleppunet
Grásleppa 3.357 kg
Þorskur 383 kg
Ýsa 23 kg
Samtals 3.763 kg
25.4.24 Magnús HU 23 Grásleppunet
Grásleppa 3.836 kg
Samtals 3.836 kg
25.4.24 Rún NS 300 Grásleppunet
Grásleppa 1.853 kg
Þorskur 296 kg
Skarkoli 100 kg
Samtals 2.249 kg
25.4.24 Patrekur BA 64 Dragnót
Skarkoli 1.853 kg
Þorskur 271 kg
Sandkoli 102 kg
Ýsa 8 kg
Samtals 2.234 kg

Skoða allar landanir »