Erum ekki að leita að sökudólgum

Jón Arilíus gluggar í gömul sjókort í bækistöðvum rannsóknarnefndarinnar. Reyndar …
Jón Arilíus gluggar í gömul sjókort í bækistöðvum rannsóknarnefndarinnar. Reyndar eru kortin orðin rafræn í flestum skipum í flotanum. mbl.is/Unnur Karen

„Ég fer sáttur frá borði,“ segir Jón Arilíus Ingólfsson, sem senn lætur af störfum sem rannsóknastjóri á sjóslysasviði Rannsóknarnefndar samgönguslysa, 67 ára gamall. Síðustu tvo áratugi hefur hann starfað á þessum vettvangi og segir margt hafa áunnist við skráningar slysa og óhappa og um borð í bæði fiski- og flutningaskipum. Betri skip og búnaður, aukin fræðsla og viðhorfsbreyting til öryggismála vegi þungt í þeim efnum.

„Það er dýrmætt að til er orðin ákveðin menning um borð í skipunum og að henni þarf að hlúa,“ segir Jón Arilíus. „Nú þurfa allir sjómenn meðal annars að fara í Slysavarnaskóla sjómanna og síðan í endurmenntun á fimm ára fresti. Gæða- og öryggiskerfi hafa náð til flutningaskipa og eru smám saman að koma í fiskiskipin. Farið er að skilgreina hættusvæði um borð og menn þurfa að vera duglegir að gera áhættumat fyrir vinnusvæði. Ég hafði lengi áhyggjur af þreytu sjómanna vegna mikillar vöku og ofhleðslu báta, en hvort tveggja horfir til betri vegar.

Núorðið er meiri reynsla meðal sjómanna en áður og þeir eru lengur til sjós. Áður var starfsmannaveltan allt of mikil, jafnvel hættulega mikil. Ég líki því ekki saman hvernig er að sigla með vönum mönnum og þeim sem eru óvanir.“

Skipstjóri hjá Ríkisskipum

Sjálfur hafði Jón Arilíus verið til sjós í mörg ár áður en hann hóf störf við rannsóknir. Uppalinn í Reykjavík fór hann til sjós 17 ára gamall á flutningaskip og eftir nám í Stýrimannaskólanum var hann lengi hjá Skipaútgerð ríkisins og síðan Ríkisskipum. Hann varð skipstjóri á strandferðaskipunum þrítugur að aldri og var síðast með Hekluna, síðasti skipstjórinn í starfi hjá Ríkisskipum.

Jón Arilíus hóf störf sem framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar sjóslysa 1. nóvember 2001 og flutti þá fljótlega með embættið til Stykkishólms, þar sem nefndin hafði aðsetur fram til 2014. Eftir að Ríkisskip voru lögð niður menntaði hann sig einnig í rekstrarfræði í Háskólanum á Bifröst og fór túra á fiskipum til að kynna sér störfin þar eftir að hann hóf rannsóknastörf.

Slysin eru af ýmsum toga. Trébáturinn Hólmsteinn GK sökk á …
Slysin eru af ýmsum toga. Trébáturinn Hólmsteinn GK sökk á augabragði í Sandgerðishöfn árið 2016 eftir að Ásdís GK sigldi á hann. Ljósmynd/Reynir Sveinsson

Fjöldi alvarlegra slysa til sjós

Í lauslegri samantekt Jóns um sögu rannsókna á sjóatvikum kemur fram að upphafið má rekja til samþykktar Alþingis á þingsályktunartillögu 1963 um að fela ríkisstjórninni að láta fara fram opinbera rannsókn á orsökum fjölmargra skipstapa, er orðið höfðu næstu 2-3 árin á undan. Nefnd starfaði að þessu verkefni 1963 til 1965 og skilaði mikilli greinargerð byggðri á rannsóknum á 106 sjóslysum á árunum 1960 til 1963 auk þess að fjalla um sjóslys frá árinu 1949 til 1959.

Samkvæmt lögum frá 1970 var ári síðar skipuð fimm manna rannsóknarnefnd um eftirlit með skipum. Hagsmunasamtök áttu m.a. fulltrúa í nefndinni og var hlutverk hennar að fylgjast með starfi sjódóma,

safna upplýsingum og miðla þeim til sjómannaskóla, sjómanna og útgerðarmanna. Nefndin átti m.a. að gera tillögur til að draga úr slysahættu á sjó. 1985 var nefndin lögð niður samkvæmt lögum um siglingar.

Árið 1986 var gerð breyting á siglingalögum og ný nefnd skipuð án tilnefninga frá hagsmunasamtökum. Samkvæmt samantekt 1987 hafði 121 skip farist frá 1946 til 1987 en vegna erfiðleika við upplýsingaöflun var gerður fyrirvari á mögulegum skekkjum. Veruleg fækkun hafði orðið á vinnuslysum um borð á tímabilinu en hins vegar ekki hvað varðaði stöðugleika skipa og má nefna að ellefu skip fórust á síldveiðum 1960-1964. Áberandi var að slys yrðu vegna vanþekkingar og aðgæsluleysis, mest hjá nýliðum, samkvæmt samantekt Jóns Arilíusar.

Fyrstu heildarlögin um rannsóknir sjóslysa á Íslandi tóku gildi 1. september árið 2000. Með þeim varð sú breyting að rannsóknir á sjóslysum urðu algjörlega sjálfstæðar og nefndin óháð stjórnvöldum, öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Óheimilt var að nota skýrslur RNS í opinberum málarekstri og frá 2013 í dómsmálum. Frá aldamótum hefur RNS aldrei farið fram á sjópróf.

2013 voru samþykkt lög um rannsókn samgönguslysa sem tóku gildi 1. júní það ár og með þeim voru rannsóknarnefndir sjóslysa, flugslysa og umferðarslysa sameinaðar. Frá 2013 hefur Jón Arilíus verið rannsóknarstjóri á siglingasviði Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Sjö starfsmenn eru hjá RNSA, tveir rannsakendur á hverju sérsviði og móttökuritari.

Ný vinnubrögð – nýjar húfur

„Þegar ég kom að þessum störfum fyrir réttum 20 árum var í raun um óplægðan akur að ræða,“ segir Jón Arilíus. „Lögin frá 2000 byggðust á því að um rannsóknarnefnd væri að ræða sem ekki væri að leita að sökudólgum. Þetta fól í sér ný vinnubrögð og menn gátu tjáð sig um atvik án þess að verið væri að spá í sök og ábyrgð, sem hægt væri að nota gegn þeim til dæmis í dómsmáli. Þetta var alveg nýtt og talsvert verkefni að koma af stað og sýna mönnum að við værum með nýjar húfur.“ Til að árétta það er eftirfarandi setningu að finna í lokaskýrslum Rannsóknarnefndarinnar: „Tilgangur þessarar skýrslu er ekki að skipta sök eða ábyrgð og skal henni ekki beitt sem sönnunargagni í dómsmáli.“

Mikilvægt er að draga lærdóm af slysunum.
Mikilvægt er að draga lærdóm af slysunum. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Jón Arilíus segir að skráning slysa sé í góðu horfi hjá Sjúkratryggingum Íslands, lögreglu og Landhelgisgæslu. Flest málin koma einnig á borð sjóslysanefndar, sem skráir þau og fjallar sérstaklega um þau stærstu og þau sem draga má lærdóm af.

Hann segir að nú sé nokkuð fullkomin tölfræði fyrir hendi um slys og atvik á sjó, nokkuð sem ekki var til að dreifa fyrir 20 árum. Ekki sé lengur verið að elta hvert einasta atvik, t.d. þegar bátar verða vélarvana án frekari erfiðleika eða eftirmála, en farið sé yfir öll atvik þannig að tölulegar upplýsingar eru nú fyrir hendi.

Kynnast golfi í Háskólanum

Jón Arilíus hefur ekki áhyggjur af verkefnaskorti nú þegar hann lætur af störfum sem rannsóknastjóri. Hann segir að fjölskyldan sé orðin nokkuð stór, þau eigi sumarbústað í Ölveri undir Hafnarfjalli og veiðiferðir og ýmislegt fleira muni eflaust fá aukinn tíma í framtíðinni. Svo er það kannski golfið.

„Ég og konan mín, Sigrún Elín Svavarsdóttir, erum komin í Háskólann, nánar tiltekið á námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, þar sem við lærum um frumatriði í golfi hjá Magnúsi Birgissyni á þriggja kvölda námskeiði. Það verður spennandi að sjá hvert það leiðir okkur,“ segir Jón Arilíus Ingólfsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.3.24 558,73 kr/kg
Þorskur, slægður 18.3.24 503,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.3.24 332,79 kr/kg
Ýsa, slægð 18.3.24 217,26 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.3.24 221,12 kr/kg
Ufsi, slægður 18.3.24 222,80 kr/kg
Gullkarfi 18.3.24 234,34 kr/kg
Litli karfi 18.3.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 18.3.24 208,37 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.3.24 Málmey SK 1 Botnvarpa
Þorskur 52.598 kg
Samtals 52.598 kg
19.3.24 Haförn ÞH 26 Dragnót
Þorskur 3.518 kg
Steinbítur 614 kg
Ýsa 575 kg
Skarkoli 497 kg
Sandkoli 297 kg
Ufsi 95 kg
Samtals 5.596 kg
19.3.24 Vigur SF 80 Lína
Steinbítur 2.002 kg
Þorskur 523 kg
Ýsa 204 kg
Langa 19 kg
Samtals 2.748 kg
19.3.24 Öðlingur SU 19 Línutrekt
Þorskur 7.715 kg
Ýsa 1.700 kg
Steinbítur 527 kg
Langa 117 kg
Keila 37 kg
Ufsi 12 kg
Samtals 10.108 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.3.24 558,73 kr/kg
Þorskur, slægður 18.3.24 503,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.3.24 332,79 kr/kg
Ýsa, slægð 18.3.24 217,26 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.3.24 221,12 kr/kg
Ufsi, slægður 18.3.24 222,80 kr/kg
Gullkarfi 18.3.24 234,34 kr/kg
Litli karfi 18.3.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 18.3.24 208,37 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.3.24 Málmey SK 1 Botnvarpa
Þorskur 52.598 kg
Samtals 52.598 kg
19.3.24 Haförn ÞH 26 Dragnót
Þorskur 3.518 kg
Steinbítur 614 kg
Ýsa 575 kg
Skarkoli 497 kg
Sandkoli 297 kg
Ufsi 95 kg
Samtals 5.596 kg
19.3.24 Vigur SF 80 Lína
Steinbítur 2.002 kg
Þorskur 523 kg
Ýsa 204 kg
Langa 19 kg
Samtals 2.748 kg
19.3.24 Öðlingur SU 19 Línutrekt
Þorskur 7.715 kg
Ýsa 1.700 kg
Steinbítur 527 kg
Langa 117 kg
Keila 37 kg
Ufsi 12 kg
Samtals 10.108 kg

Skoða allar landanir »