Með augastað á tækifærunum í Rússlandi

Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Nautic, segir margt frábrugðið í hönnun og …
Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Nautic, segir margt frábrugðið í hönnun og smíði skipa í Rússlandi. Ljósmynd/Nautic

Skipahönnunarfyrirtækið Nautic hefur gert víðtæka samninga í Rússlandi og er eina vestræna hönnunarfyrirtækið sem hefur ákveðið að koma þar upp dótturfélagi. Í kjölfarið hefur reksturinn þróast og býður fyrirtækið nú heildstæðar lausnir með hönnun sem nær yfir allt frá skrokki yfir í minnstu atriði svo sem innréttingar og litaval.

„Þetta er svolítið ævintýri að hafa stokkið sextugur með báða fætur inn í Rússland og setja alla afkomu af þessu verkefni inn í uppbyggingu þar,“ segir Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Nautic.

Perustefni skipanna hefur vakið töluverða athygli.
Perustefni skipanna hefur vakið töluverða athygli. Mynd/Nautic

Stærsta útgerðin

Það vakti athygli víða er fréttir bárust af því að eitt stærsta útgerðarfélag Rússlands, Norebo Group, hefði ákveðið að láta smíða sex togara eftir hönnun Nautic. Skipin eru öll með auðþekkjanlegt enduro-bow-perustefni og eru 81 metra löng og 16 metra breið. Óhætt er að segja að Norebo hafi verið sátt með skipin og ákvað rússneska útgerðin að láta smíða fjögur svipuð skip til viðbótar. Smíði tíunda Norebo-togarans hófst á síðari helmingi þessa árs í Norðlægu skipasmíðastöðinni (r. Severnaya Verf) í Sankti Pétursborg í Rússlandi.

„Það vildi þannig til að við gerðum tillögu að togara fyrir Norebo, sem er stærsta útgerðarfyrirtækið í Rússlandi með aflaheimildir sem nema íslensku aflaheimildunum. Þetta er sería upp á tíu togara og sex af þeim verða í rekstri í Múrmansk en fjórir verða gerðir út frá Petropavlovsk á Kamsjatska-skaga,“ svarar Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Nautic, spurður um verkefnið.

„Munur er á milli þessara skipa en það sem er kannski mikilvægt fyrir okkur er að þegar við fengum þennan samning vildum við ekki gera eins og samkeppnisaðilar okkar í Noregi; hanna út frá sínum forsendum og kveðja svo, heldur ákváðum við að byggja upp fyrirtæki í Rússlandi og flytja inn okkar þekkingu og reynslu. Við stofnuðum Nautic RUS sem er handhafi þessara samninga, í gegnum það gerðum við samninga bæði við skipasmíðastöðina og eiganda togaranna,“ útskýrir hann.

Tekjur sem Nautic fékk vegna smíði togaranna voru nýttar til að byggja upp reksturinn í Rússlandi, að sögn Alfreðs, og starfa hjá Nautic RUS nú 57 rússneskir verkfræðingar. „Ég hef þurft að vera svo mikið þarna að ég þurfti að sækja um atvinnuleyfi og er ráðinn þangað sem sérfræðingur,“ segir Alfreð sem er eini erlendi starfsmaður rússneska fyrirtækisins.

Fólk gengur yfir ísilagða ána Neva í Sankti Pétursborg í …
Fólk gengur yfir ísilagða ána Neva í Sankti Pétursborg í Rússlandi. AFP

Eina fyrirtækið

Hann kveðst ekki geta upplýst hvert verðmæti samninganna sé en einstaklingar sem þekkja til skipahönnunar telja að Nautic kunni að hafa fengið um 10 milljónir evra í sinn hlut, jafnvirði 1,5 milljarða íslenskra króna, fyrir þessa tíu togara.

Rússnesk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að fiskiskipafloti landsins verði nútímavæddur ásamt greininni í heild. Til að stuðla að þessu hefur verið reynt að skapa hagstætt umhverfi fyrir útgerðarfyrirtæki að fara í nýsmíði og hefur fjöldi skipa verið smíðaður.

Frystitogarinn Kapitan Sokolov í smíðum í skipasmíðastöðinni í Sankti Pétursborg.
Frystitogarinn Kapitan Sokolov í smíðum í skipasmíðastöðinni í Sankti Pétursborg. Ljósmynd/Nautic

Hafa önnur vestræn fyrirtæki komið sér fyrir í Rússlandi með sama hætti og Nautic?

„Nei. Við erum þeir einu sem höfum ákveðið að fara af fullum krafti inn á Rússlandsmarkað og gera þetta í rússnesku fyrirtæki og hampa þessu sem rússnesku fyrirtæki,“ svarar Alfreð sem viðurkennir að það hafi þurft kjark til að stíga skrefið til fulls. „Þetta er svolítið ævintýri að hafa stokkið sextugur með báða fætur inn í Rússland og setja alla afkomu af þessu verkefni inn í uppbyggingu þar. Margir hefðu eflaust viljað taka af þessu rjómann og sitja síðan á feitum sjóðum og njóta. Við vildum gefa eitthvað af okkur inn í þetta samfélag sem er í svona mikilli uppbyggingu.“

Hann segir þessum áherslum Nautic mjög vel tekið í Rússlandi og Rússar haldi ekki aftur af sér er þeir hæla því að Íslendingar hafi sýnt vilja til að fara í þessi verkefni undir merkjum rússnesks fyrirtækis.

Annað ferli

Alfreð segir stuðst við aðra aðferðafræði þegar kemur að skipahönnun í Rússlandi en tíðkast á Vesturlöndum. „Teikningaferlið í Rússlandi er töluvert öðruvísi en við erum vanir frá vestrænum heimi. Við byrjum að gera konseptteikningar af skipinu, sem er þá fyrirkomulag og ýmsar grunnteikningar og myndræn framsetning á skipinu, auk þess að gera áætlanir um allar helstu stærðir svo sem burðargetu og fleira.“

Næst hefst gerð flokkunarfélagsteikninga og verður hönnunin að taka mið af reglum RMRS (Russian Maritime Register of Shipping), að sögn Alfreðs sem bætir við að Russian Maritime sé eins og hvert annað flokkunarfélag og er aðili að alþjóðlegum samtökum flokkunarfélaga.

Í Rússlandi er krafa um að skipasmíðastöð séu afhentar vinnuteikningar og þarf því að skila mjög umfangsmiklum teikningum þar sem teiknuð eru upp jafnvel smæstu atriði. Nautic RUS sinnir þessu og eru allar flokkunarfélags- og vinnuteikningar því á einni hendi. Alfreð segir að með þessu sé verið að afhenda alhliða leiðbeiningar um smíði skipsins. „Það er nánast verið að láta skipasmíðastöðina hafa IKEA-bækling.“

Mikið er lagt upp úr hönnuninni í öllum rýmum skipanna …
Mikið er lagt upp úr hönnuninni í öllum rýmum skipanna og er vinnuaðstaða vélstjóra þar engin undantekning. Ljósmynd/Nautic

Kemur í veg fyrir árekstra

Mikill kostur er að hafa alla hönnun á einum stað, fullyrðir Alfreð sem segir áberandi hvernig aukið flækjustig hafi áhrif á smíði og gæði skipa. „Menn hafa hannað grunnteikningarnar og afhent stöð sem er ekki vön að gera fiskiskip sem síðan lætur vinnuteikningarnar í hendurnar á fyrirtæki sem veit ekkert hvað það er að hanna. Jafnvel sett stálvinnuteikningar í hendur eins aðila, rör í annað fyrirtæki, rafmagnið í þriðja og innréttingar í það fjórða. Þetta veldur því að hönnunin verður ekki heildstæð.“

Hönnun sem er ekki heildstæð veldur árekstrum, til að mynda í sambandi við fyrirkomulag röra- og raflagnateikninga. Slíkir árekstrar geta hæglega tafið smíði skips með tilheyrandi kostnaði. „Það þarf að deila plássinu mjög vel í fiskiskipum,“ útskýrir Alfreð. Nautic býr hins vegar svo vel að hafa alla þætti í einu kerfi. „Um leið og við erum búin að hanna eitthvað förum við að birta alla heildarmyndina og getum þá lagað með tilliti til plássnýtingar og getum hliðrað einhverju til ef þörf er á því.“

Klefar sjómanna um borð í skipum sem Nautic hannar eru …
Klefar sjómanna um borð í skipum sem Nautic hannar eru stílhreinir og fallegir. Ljósmynd/Nautic

Í ljósi þessa hefur fyrirtækið lagt áherslu á að veita heildarþjónustu og heildarráðgjöf í hönnun fiskiskipa í Rússlandi, en til þess hefur þurft að ráða til starfa fjölda verkfræðinga með alla þá sérþekkingu sem hönnun nútímalegra hágæðaskipa krefst. „Við erum með 57 vel menntaða verkfræðinga. Allt frá hefðbundnum skipaverkfræðingum til verkfræðinga í stálstrúktúr og sérfræðinga í undirstöðum fyrir búnað. Við erum með fólk í rörakerfum, rafmagni, loftræstikerfum og vélaverkfræðinga.“

Ákveðið var að fara enn lengra í samþættingu hönnunar og voru tveir innanhússarkitektar ráðnir í fullt starf. Sjá þeir um hönnun innréttinga skipsins og fylgir því meðal annars efnis- og litaval.

Hugað er að hönnun allra þátta.
Hugað er að hönnun allra þátta. Ljósmynd/Nautic

Tryggja eiginleika skipsins

Alfreð segir grundvallaratriði að tryggja að skipið hafi þá eiginleika sem gert var ráð fyrir þegar það var hannað og er hægt með þrívíddarhönnun að afhenda skipasmíðastöð öll skurðarplön og allar aðrar upplýsingar sem þarf til að smíða skipið. Auk þess er stöðinni veitt tæknileg aðstoð og hefur verið fjárfest í færanlegu skrifstofuhúsnæði fyrir sjö verkfræðinga.

„Með þessu náum við að hafa stjórn á þyngdarþróun skipsins á smíðatímanum. Það er mjög mikilvægt því það er hægt að eyðileggja skip sem er með yfirþykktum í allskonar hlutum. Það tekur enga stund að þyngja svona skip um einhver 200 tonn með einhverju rugli. Þá sekkur skipið bara dýpra í sjóinn, en þú hefur gert ráð fyrir vissu fríborði til að takast á við þann afla og þær byrðar sem þú ætlar að setja á skipið.“

Þörf á þekkingu

Spurður hvort þessi alhliða þjónusta henti vel í Rússlandi svarar Alfreð því játandi enda hefur Norebo ákveðið að ganga til samninga við Nautic RUS um hönnun fjögurra línuskipa, en þau verða 64 metrar að lengd og 14 metrar að breidd. „Þetta eru mjög fullkomin línuskip. Það er ýmislegt nýtt sem við erum að gera í þessari hönnun. Öðruvísi framdriftsbúnaður, öðruvísi fyrirkomulag með losun og lestun og margt nýtískulegt í útfærslum þeirra. Svo eru þessi skip nýtískuleg í útliti.

Í þessu verkefni hefur skipasmíðastöðin verið að falast eftir því að við förum jafnvel enn þá lengra í afhendingu á gögnum og dýpra inn í þeirra framleiðslukerfi sem felst í að halda utan um samþættingu upplýsingaflæðis, þannig að til sé einn miðlægur gagnagrunnur þar sem eru upplýsingar um búnað og allar uppfærslur á teikningum sem koma frá framleiðendum.“

Ný er unnið að hönnun 64 metra línuskipum fyrir Norebo.
Ný er unnið að hönnun 64 metra línuskipum fyrir Norebo. Mynd/Nautic

Töluverð eftirspurn er í Rússlandi eftir þekkingu í sambandi við hönnun fiskiskipa og á sér eðlilega skýringu, að sögn Alfreðs. Á tímum Sovétríkjanna hafi smíði fiskiskipa verið falin skipasmíðastöðvum í öðrum austantjaldsríkjum á borð við Pólland, Úkraínu, Búlgaríu og Rúmeníu, en rússnesku stöðvarnar sinntu á þessum tíma smíði herskipa. Arfleifð þess er meðal annars að 96% skipasmíðastöðva Rússlands eru í eigu ríkisfyrirtækis. „Stjórnunarhættirnir í þessu fyrirtæki eru pínu sovéskir ennþá. Þetta litar alla aðferðafræði í skipasmíðastöðinni sem manni finnst alveg rosalega seinvirk og bjúrókratísk; hluti sem manni finnst tiltölulega einfaldir tekst að flækja.“

Menntun skipaverkfræðinga í Rússlandi er einnig ólík því sem gengur og gerist á Vesturlöndum og sést það fyrst og fremst í mikilli sérhæfingu þeirra, sem hefur þau áhrif að þeir hafa ekki jafn blandaða þekkingu. „Þegar við vorum með sérfræðing í rörum þá var kannski einn sérfræðingur í rörum í vélarrúmi og annar sérfræðingur í rörum í dvalarrými, en rörin eru alveg eins óháð því hvað kemur út úr þeim eða fer inn í þau.“

Mikilvægt var því að skapa „brýr“ í fyrirtækinu sem hjálpa starfsfólkinu að fara út fyrir þægindaramma sinn og uppgötva að það hafi þekkingu til að takast á við fleiri verkefni en sérhæfingin segir til um, segir Alfreð. „Þá fáum við miklu betri virkni á skrifstofunni.“

Ríkisháskólinn í Moskvu.
Ríkisháskólinn í Moskvu. Ljósmynd/Unsplash/Alexander Smagin

Tilraunastofan Ísland

Alfreð telur forsendur þess að hægt sé að sækja fram á erlendum mörkuðum vera að á Íslandi sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar í sjávarútvegi og er staðan mjög góð í þeim efnum.

„Það eru svo stuttar boðleiðir til að fá upplýsingar bæði hjá þeim sem gera út skipin og hjá fyrirtækjum sem eru að þjónusta sjávarútveginn. Ísland er eins og lítil tilraunastofa og menn eru viljugir til að prófa ýmislegt.“ Þá hefur Nautic lagt kapp á að mæla með lausnum annarra íslenskra fyrirtækja, svo sem Naust Marine og Frost, svo dæmi séu tekin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 19.4.24 449,16 kr/kg
Þorskur, slægður 19.4.24 562,68 kr/kg
Ýsa, óslægð 19.4.24 314,23 kr/kg
Ýsa, slægð 19.4.24 191,66 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.4.24 152,79 kr/kg
Ufsi, slægður 19.4.24 271,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 19.4.24 133,77 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Neisti HU 5 Grásleppunet
Grásleppa 1.685 kg
Þorskur 38 kg
Rauðmagi 3 kg
Steinbítur 3 kg
Skarkoli 1 kg
Þykkvalúra 1 kg
Samtals 1.731 kg
19.4.24 Egill ÍS 77 Dragnót
Skarkoli 3.982 kg
Steinbítur 1.328 kg
Þorskur 123 kg
Sandkoli 86 kg
Grásleppa 43 kg
Þykkvalúra 17 kg
Samtals 5.579 kg
19.4.24 Siggi Bjartar ÍS 50 Grásleppunet
Grásleppa 3.507 kg
Þorskur 79 kg
Rauðmagi 41 kg
Skarkoli 11 kg
Samtals 3.638 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 19.4.24 449,16 kr/kg
Þorskur, slægður 19.4.24 562,68 kr/kg
Ýsa, óslægð 19.4.24 314,23 kr/kg
Ýsa, slægð 19.4.24 191,66 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.4.24 152,79 kr/kg
Ufsi, slægður 19.4.24 271,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 19.4.24 133,77 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Neisti HU 5 Grásleppunet
Grásleppa 1.685 kg
Þorskur 38 kg
Rauðmagi 3 kg
Steinbítur 3 kg
Skarkoli 1 kg
Þykkvalúra 1 kg
Samtals 1.731 kg
19.4.24 Egill ÍS 77 Dragnót
Skarkoli 3.982 kg
Steinbítur 1.328 kg
Þorskur 123 kg
Sandkoli 86 kg
Grásleppa 43 kg
Þykkvalúra 17 kg
Samtals 5.579 kg
19.4.24 Siggi Bjartar ÍS 50 Grásleppunet
Grásleppa 3.507 kg
Þorskur 79 kg
Rauðmagi 41 kg
Skarkoli 11 kg
Samtals 3.638 kg

Skoða allar landanir »