Tímamót hjá Nesfiski í Garði

Nýr Baldvin Njálsson í reynslusiglingu fyrir utan Vigo á Spáni, …
Nýr Baldvin Njálsson í reynslusiglingu fyrir utan Vigo á Spáni, en skipið er væntanlegt til landsins undir mánaðamót. Samstarfið við Armon-skipasmíðastöðina hefur gengið vel. Ljósmynd/Magnús Þór Bjarnason

Tímamót verða hjá Nesfiski í Garði síðar í mánuðinum er nýr frystitogari bætist í flotann og það má skynja nokkra eftirvæntingu þegar rætt er við Bergþór Baldvinsson framkvæmdastjóra. Nýja skipið er fullkomið í alla staði og um leið fyrsta nýsmíði þessa 35 ára gamla fjölskyldufyrirtækis á skipi af þessari stærð. Samfellda sögu má reyndar rekja aftur til 1973 þegar Baldvin Njálsson og Þorbjörg Bergsdóttir kona hans og fjölskylda þeirra byrjuðu með útgerð og fiskvinnslu.

Skipið er smíðað hjá skipasmíðastöðinni Armon í Vigo á Spáni og lýkur Bergþór lofsorði á samstarfið við fyrirtækið. Allt hafi staðið eins og stafur á bók og afhendingartíminn sé nánast upp á dag sá sami og miðað var við þegar skrifað var undir samninga fyrir tveimur árum. Kórónufaraldurinn og varnaraðgerðir vegna hans hafi hvorki haft teljandi áhrif á framvinduna við smíði skipsins né á afhendingu tækjabúnaðar, sem kemur frá íslenskum og erlendum framleiðendum.

Sævar Birgisson og samstarfsfólk hans hjá Skipasýn hönnuðu skipið.

Bergþór Baldvinsson segir nýsmíði frystitogarans er stórt skref fyrir Nesfisk.
Bergþór Baldvinsson segir nýsmíði frystitogarans er stórt skref fyrir Nesfisk.

Kostar yfir fimm milljarða

Bergþór segir að þetta sé stórt skref fyrir fyrirtækið, en skip eins og nýr Baldvin kostar yfir fimm milljarða króna. Komið hafi verið að endurnýjun á eldri frystitogara með sama nafni. Ákveðið hafi verið að fjárfesta í nýju skipi og halda sig við flakafrystitogara, en útgerð á gamla Baldvin hafi gengið vel. Það skip var einnig smíðað í Vigo á Spáni, 1990, og bar áður nöfnin Rán HF, Otto Wathne NS og Ginnöy. Skipið var selt til Rússlands í sumar.

Nesfiskur er meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins með tæplega 11 þúsund þorskígildistonn samkvæmt yfirliti á heimasíðu Fiskistofu. Fyrirtækið er í 15. sæti yfir úthlutaðar aflaheimildir. Fyrirtækið hefur leigt til sín talsvert af heimildum og keypt fisk á markaði eftir þörfum vinnslunnar.

Nesfiskur rekur fiskvinnslu í Garði og á tveimur stöðum í Sandgerði, Ný-Fisk og Fiskverkun Ásbergs. Afurðirnar eru ýmist seldar frystar, ferskar eða saltaðar. Þá á Nesfiskur rækjuvinnsluna Meleyri á Hvammstanga og hafa togskipin Berglín og Sóley Sigurjóns sótt á rækjumið úti fyrir Norðurlandi frá mars og fram í september síðustu ár.

Alls starfa yfir 300 manns hjá Nesfiski og að sögn Bergþórs hafa margir starfsmennirnir verið lengi hjá fyrirtækinu. Nesfiskur er umsvifamikill í atvinnulífi Suðurnesjabæjar, en svo heitir sveitarfélagið eftir sameiningu Garðs og Sandgerðis. Þar búa um 3.700 manns.

Mikið rými er í brú nýja skipsins þaðan sem sést …
Mikið rými er í brú nýja skipsins þaðan sem sést til allra átta. Skipið er búið fullkomnum tækjum hvort sem um er að ræða í brú, vélarrúmi, millidekki, frystilest eða annars staðar. - nýr baldvin njálsson Ljósmynd/Magnús Þór Bjarnason

Nú er miðað við að nýr Baldvin verði afhentur Nesfiski á Spáni 20. nóvember og hann komi til Íslands viku síðar, en svona stórt skip getur ekki lagst að bryggju í Garði. Skipstjórar verða þeir Arnar Óskarsson og Þorsteinn Eyjólfsson. 26 manns verða í áhöfn hverju sinni, en tvær áhafnir verða á skipinu, alls 52 manns.

Skipið er tæplega 66 metra langt og 16 metrar á breidd. Aðalvél er frá Wartsila og skipið er búið fullkomnum tækjum, hvort sem um er að ræða brú, vélarrúm, millidekk eða frystilest.

Sparneytið skip og mikil sjálfvirkni

Bergþór segir mestu breytinguna vera hversu sparneytið og umhverfisvænt nýja skipið verði og lögð sé áhersla á bætta aðstöðu fyrir mannskapinn og betri meðferð afla.

Mikil sjálfvirkni sé í nýja skipinu, sem fækki handtökum. Hann nefnir sérstaklega flokkun, pökkun og vöruhótel í frystilest, sem er á tveimur hæðum, samtals 1.600 rúmmetrar. Þjarkar beina frosnum afurðum að sjálfvirkum pökkunarbúnaði, sem fara sjálfvirkt í kössum í hillur á lager. Þegar kassarnir eru orðnir það margir að þeir passi á bretti sér brettastaflari um að færa þá sjálfvirkt á brettin. Við löndun eru brettin tilbúin og tegundarflokkuð til útflutnings.

Magnús Þór Bjarnason í skrúfuhringnum en skrúfan er fimm metrar …
Magnús Þór Bjarnason í skrúfuhringnum en skrúfan er fimm metrar - ný baldvin njálsson

Mörg skipanöfnin tengjast fjölskyldunni

Auk frystitogarans nýja á Nesfiskur átta önnur skip og gerir út á troll, dragnót og línu. Þau eru Sóley Sigurjóns GK 200, Berglín GK 300, Pálína Þórunn GK-49, Sigurfari GK 138, Siggi Bjarna GK 5, Benni Sæm GK 26, Bergur Vigfús GK 43, Dóri GK 42, Margrét GK 33 og Beta. Bergur og Beta hafa undanfarið verið bundin við bryggju og ekki verið gerð út.

Bergþór segir ekki ljóst hvort og þá hvaða breytingar verði á útgerðinni með tilkomu nýja skipsins.

Saga fjölskyldu eigendanna speglast í nöfnum skipanna. Bergþór framkvæmdastjóri er sonur Baldvins Njálssonar og Þorbjargar Bergsdóttur, en þau stofnuðu Nesfisk fyrir 35 árum ásamt fjölskyldu sinni. Nýja skipið ber nafn Baldvins. Pálína Þórunn og Bergur Vigfús bera nöfn foreldra Þorbjargar. Margrét var systir Þorbjargar og nafnið á Dóra kemur líka úr hennar ætt.

Skipið er hið glæsilegasta.
Skipið er hið glæsilegasta. Ljósmynd/Magnús Þór Bjarnason

Sóley Sigurjóns er tengdamóðir Málfríðar, systur Bergþórs, og móðir Ingibergs Þorgeirssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra tækni- og þjónustusviðs Nefisks. Berglín er móðir Bergs Þórs Eggertssonar aðstoðarframkvæmdastjóra og framkvæmdastjóra útgerðarsviðs. Benni Sæm var langafi Bergþórs í föðurætt. Siggi Bjarna var bróðir langömmu Bergþórs og bar fyrsti bátur Nesfisks nafnið Sigurður Bjarnason, sem var síðan stytt.

Sigurfaranafnið er komið frá Vestmannaeyjum, en Nesfiskur keypti bát þaðan með þessu nafni og var það notað áfram þegar hann var endurnýjaður. Sömu sögu er að segja um Betu.

Hvatti til nýsmíðinnar

Þorbjörg Bergsdóttir stjórnarformaður Nesfisks, gjarnan kölluð Bobba í Nesfiski, svaraði í símann þegar hringt var í fyrirtækið í vikunni. Hún er 82 ára og störfin við útgerð og fiskvinnslu fjölskyldunnar hafa alla tíð verið samofin lífi hennar og Baldvins Njálssonar eiginmanns hennar, sem lést 63 ára að aldri árið 2000.

Aðspurð um nýja skipið segir Þorbjörg að það sé mikill áfangi að fá nýjan, fullkominn frystitogara. Hún segist hafa hvatt til nýsmíðinnar og segist ekki hafa sterkt samviskubit af því.

Tímabært hafi verið að fara í þessa vegferð og um tímamót sé að ræða hjá Nesfiski. Þorbjörg rifjar upp að þegar fyrirtækið fjárfesti síðast í nýsmíði hafi Bergþór framkvæmdastjóri verið sex ára. Það skip bar nafnið Benedikt Sæmundsson og var smíðað í Bátalóni í Hafnarfirði.

Bobba segist ganga í það sem þurfi að gera á skrifstofunni, meðan margir jafnaldrar hennar láti sér leiðast. Hún mæti flesta morgna til starfa, en það sé misjafnt hvað hún sé þar lengi dag hvern. Hún sé fyrir löngu orðin hluti af innréttingunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 6.12.21 368,52 kr/kg
Þorskur, slægður 6.12.21 499,85 kr/kg
Ýsa, óslægð 6.12.21 361,60 kr/kg
Ýsa, slægð 6.12.21 401,57 kr/kg
Ufsi, óslægður 6.12.21 236,15 kr/kg
Ufsi, slægður 6.12.21 252,83 kr/kg
Djúpkarfi 23.11.21 206,00 kr/kg
Gullkarfi 6.12.21 232,70 kr/kg
Litli karfi 20.10.21 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 5.12.21 278,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

6.12.21 Sigrún EA-052 Handfæri
Ufsi 269 kg
Þorskur 24 kg
Samtals 293 kg
6.12.21 Karólína ÞH-100 Lína
Þorskur 2.901 kg
Ýsa 1.086 kg
Samtals 3.987 kg
6.12.21 Blíðfari ÓF-070 Þorskfisknet
Þorskur 662 kg
Samtals 662 kg
6.12.21 Jónína Brynja ÍS-055 Lína
Ýsa 1.393 kg
Þorskur 57 kg
Gullkarfi 8 kg
Langa 6 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 1.466 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 6.12.21 368,52 kr/kg
Þorskur, slægður 6.12.21 499,85 kr/kg
Ýsa, óslægð 6.12.21 361,60 kr/kg
Ýsa, slægð 6.12.21 401,57 kr/kg
Ufsi, óslægður 6.12.21 236,15 kr/kg
Ufsi, slægður 6.12.21 252,83 kr/kg
Djúpkarfi 23.11.21 206,00 kr/kg
Gullkarfi 6.12.21 232,70 kr/kg
Litli karfi 20.10.21 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 5.12.21 278,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

6.12.21 Sigrún EA-052 Handfæri
Ufsi 269 kg
Þorskur 24 kg
Samtals 293 kg
6.12.21 Karólína ÞH-100 Lína
Þorskur 2.901 kg
Ýsa 1.086 kg
Samtals 3.987 kg
6.12.21 Blíðfari ÓF-070 Þorskfisknet
Þorskur 662 kg
Samtals 662 kg
6.12.21 Jónína Brynja ÍS-055 Lína
Ýsa 1.393 kg
Þorskur 57 kg
Gullkarfi 8 kg
Langa 6 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 1.466 kg

Skoða allar landanir »