Samanlagt verðmæti afla sem skip Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa kom með að landi á síðasta ári nam 11,7 milljörðum. Alls veiddu bolfiskskip félaganna 34,3 þúsund tonn og var verðmæti aflans 9,3 milljarðar en afli nýs uppsjávarskips Samherja, Vilhelms Þorsteinnssonar EA, nam 42,5 þúsund tonnum að verðmæti 2,4 milljarða króna.
Þetta kemur fram á vef Samherja.
Þar er haft eftir Kristjáni Vilhelmssyni, framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja, að veiðar hafi gengið vel árið 2021 en einnig hafi verið áskoranir. „Við þurftum á ýmsan hátt að hafa meira fyrir veiðunum á síðasta ári vegna óveðurs, sérstaklega í haust og vetur. Heilt yfir gengu veiðarnar þó vel, enda valinn maður í hverju rúmi og skipaflotinn góður og vel búinn. Þegar verið er að gera upp aflatölur er ekki síður mikilvægt að líta á verðmætið,“ segir hann.
Sundurliðað eftir tegundum var mest veitt af þorski. Alls voru veidd 22,2 þúsund tonn af þorski, 3,8 þúsund tonn af gullkarfa, 3,3 þúsund tonn af ýsu og 3,2 þúsund tonn af ufsa.