Virkjanakostir á skógræktarjörð Síldarvinnslunnar

Jörðin Fannardalur innst í Norðfirði mun nýtast undir skógrækt en …
Jörðin Fannardalur innst í Norðfirði mun nýtast undir skógrækt en einnig stendur til að skoða virkjanakosti í dalnum. Ljósmynd/Síldarvinnslan/Smári Geirsson

Síldarvinnslan hf. hefur fest kaup á jörðinni Fannardal innst í Norðfirði og er áformað að nýta 300 til 400 hektara undir skógrækt. Með þessu kveðst fyrirtækið, í yfirlýsingu á vef sínum, hefja bindingu kolefnis á móti þeirri kolefnislosun sem starfsemin veldur. Stefnt er að því að gera áætlun um gróðursetningu fljótlega.

Unnið er að því að hefja skógræktina í samstarfi við Skógrækt ríkisins og á verkefnið að uppfylla allar kröfur Loftslagsráðs um vottun og á ræktunin að verða hæf til skráningar í Loftslagsskrá Íslands.

Áhugi útgerða á að kolefnisjafna rekstur sinn hefur farið vaxandi á undanförnum misserum og var Eskja hf. á Eskifirði fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið til að ráðast í kolefnisjöfnun. Tilkynnti fyrirtækið í október í fyrra að útgerðin hefði fest kaup á jörðinni Freyshólar á Fljótsdalshéraði í þeim tilgangi að hefja þar skógrækt.

Samherji tilkynnti í október í fyrra að fyrirtækið stefnir að stækkun landeldisstöðvarinnar í Öxarfirði.

Þar er fyrirhugað að nýta áburð frá stöðinni til landgræðslu á jörðinni Akurseli sem fyrirtækið hefur fest kaup á með því markmiði að hefja þar síðar skógrækt.

Virkjanakostir og heitt vatn

„Fyrir utan skógræktina eru einnig möguleikar til vatnsaflsvirkjana á jörðinni. Fjórar ár eru í Fannardalslandi og eru þær vatnsmiklar. Þá ber að nefna að leitað hefur verið að heitu vatni í landi Fannardals og eru einhverjar líkur á að frekari leit geti skilað árangri. Einnig skal þess getið að jörðin er við vatnsverndarsvæði Norðfirðinga,“ segir í yfirlýsingu Síldarvinnslunnar.

Fram kemur að Síldarvinnslan hafi með markvissum hætti unnið að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum rekstursins og er vakin athygli á því að rafvæðing fiskimjölsverksmiðja og kaup á sparneytnum skipum hafi dregið verulega úr olíunotkyn fyrirtækisins.

Jafnframt er bent á nýjan landtengingabúnað við fiskiðjuverið í Neskaupstað sem gerir skipum kleift að nota einungis rafmagn við löndun og er unnið að því að koma einnig upp slíkri tengingu við fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað.

„Hjá Síldarvinnslunni eru miklar vonir bundnar við skógræktarverkefnið. Auk þess að skógurinn gegni hlutverki á sviði kolefnisbindingar er mögulegt að gera Fannardal að eftirsóknarverðu útivistarsvæði sem allir geti notið.“

„Nú verður ráðist í að skipuleggja landið og ákveða hvenær skógræktarverkefnið hefst. Hér á heimasíðunni verða fluttar fréttir um framgang verkefnisins á komandi mánuðum,“ segir í yfirlýsingunni.

Fannardalur er innst í Norðfirði.
Fannardalur er innst í Norðfirði. Kort/Map.is

Yfirlýsingu Síldarvinnslunnar fylgir umfjöllun um jörðina Fannardal:

Fannardalur og Fannardalskrossinn

Fannardalur er innsta jörðin í Norðfjarðarsveit, um 10 kílómetra inn af Norðfjarðarbotni. Jörðin er innst í Norðfjarðardalnum en innsti hluti dalsins er álitinn sérstakur dalur og ber heitið Fannardalur. Dalurinn dregur nafn sitt af jöklinum Fönn sem er á milli Norðfjarðar og Tungudals á Héraði. Jökullinn er í yfir 1000 metra hæð og áður fyrr lá leiðin oft yfir jökulinn þegar farið var fótgangandi eða ríðandi á milli Norðfjarðar og Héraðs. Norðfjarðará á upptök inn undir Fönn fyrir dalbotninum og fellur út dalinn að sunnanverðu. Þrjár þverár falla í Norðfjarðará í landi Fannardals.

Fannardals er meðal annars getið í Droplaugarsonasögu og einnig í Vilchinsmáldaga frá 14. öld þannig að búseta þar er forn. Jörðin virðist ávallt hafa verið í bændaeign en þó mun kirkja hafa haft þar einhver ítök í skógi og beit um tíma fyrr á öldum.

Fannardalur þótti vel til búskapar fallinn, einkum sauðfjárræktar. Vegarslóði var ruddur inn að bænum um 1950 og sími var lagður þangað 1955. Að því kom árið 1956 að bærinn fór í eyði. Síðustu ábúendurnir voru Ragnhildur Stefanía Jónasdóttir og Vigfús Einarsson. Jónas Árnason skrifaði bók um Ragnhildi í Fannardal og ber hún heitið Undir Fönn. Bókin kom út árið 1963.

Ýmsar sögur og sagnir tengjast Fannardal og kemur þá Fannardalskrossinn gjarnan við sögu. Elsta ritaða heimildin um krossinn er frá árinu 1819. Þá tók séra Benedikt Þorsteinsson saman áhugaverða skýrslu um hann og er meginefni hennar svofellt:

… er hér á bæ þeim sem Fannardalur heitir, innsti í firðinum, eitt lítið crucifix (trébílæti), neglt á krossspýtur, sem í fornöld er sagt að rekið hafi á þá fjöru sem hér er við sjóinn og nú heitir Krossfjara og þá hafi það flutt verið inn að Fannardal til að varna þar tröllagangi og reimleikum af álfum og óvættum sem þá hafi minnkað. Annars hef ég áreiðanlega vissu um að þetta bílæti hefur lengi vel, síðan pápískur átrúnaður niðurlagðist, vakið nokkra hjátrú hér í kring og það jafnvel fram á vora daga, í því tilliti að ýmsir menn hétu á það í margs kyns neyðar tilfellum og leystist þá oftast nær ótrúanlega úr þeim vandræðum. Oftast bestóðu heit þessi í klútrýjum, kertum og lýsi, svo lengi vel fram til minna daga þurfti bóndinn í Fannardal ei meira til lýsingar á heimili sínu en það sem krossinum gafst árlega. En nú er þetta so nær sem öllu úrelt.

Fannardalskrossinn.
Fannardalskrossinn. Ljósmynd/Síldarvinnslan

Þekktasta sagan sem tengist Fannardal greinir frá því að tvær skessur hafi búið í fjöllunum sitt hvoru megin dalsins; önnur í Kaffelli (Kallfelli) og hin í Hólafjalli. Á þeim tíma þótti afar reimt í dalnum og þóttust menn heyra þær systur tala saman eða kallast á. Síðan segir í sögunni:

Hrópaði þá sú, er í Kaffellinu bjó, til hinnar og sagði: „Spyrnum saman fjöllunum systir“. Verður þá hinni litið til sjávar, en af Hólafjallinu blasir við opinn fjörðurinn. Síðan svarar hún og segir: „Nei, systir. Fauskur er rekinn í fjarðarkjaft, flýjum heldur“. Tóku menn sig þá til og gengu á reka. Fannst þá norðanmegin fjarðarins rekið líkneski eitt, haglega gert. Var það úr tré, og virtist eiga að tákna Krist á krossinum. Var líkneskið neglt á krosstré. Heitir síðan Krossfjara, þar sem líkneskið fannst, og er hún nokkuð út frá Neskaupstað.

Það varð að samkomulagi með þeim, sem ítök áttu þar að reka, að gefa jörðinni Fannardal líkneskið og gekk það síðar undir nafninu „Krossinn í Fannardal“. Var Það trú manna í þá daga, að krossinn væri sendur af guðs tilhlutan, til þess að flæma burtu illvættir þær, er áttu að drottna þar inni í dalnum.

Fleiri skráðar frásagnir um Fannardalskrossinn má finna í bók Hálfdans Haraldssonar, Norðfjarðarbók. Einnig skal bent á ítarlega grein um krossinn eftir Bjarna Vilhjálmsson þjóðskjalavörð. Greinin birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1974 og ber yfirskriftina Róðukrossinn í Fannardal.

Árið 1895 féll frá búandi ekkja í Fannardal og voru þá allar eigur hennar boðnar upp. Þar á meðal var Fannardalskrossinn seldur hæstbjóðanda. Sá sem eignaðist krossinn var Sveinn Sigfússon, kaupmaður á Nesi, og greiddi hann 34 krónur fyrir hann. Krossinn var fluttur út á Nes og prýddi þar heimili kaupmannsins. Nú er krossinn í eigu afkomenda Sveins kaupmanns og sómir sér vel á heimili Sigfúsar Guðmundssonar og Elínborgar Eyþórsdóttur í Neskaupstað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 10.9.24 495,47 kr/kg
Þorskur, slægður 10.9.24 304,39 kr/kg
Ýsa, óslægð 10.9.24 302,89 kr/kg
Ýsa, slægð 10.9.24 290,73 kr/kg
Ufsi, óslægður 10.9.24 112,65 kr/kg
Ufsi, slægður 10.9.24 266,93 kr/kg
Djúpkarfi 21.6.24 304,40 kr/kg
Gullkarfi 10.9.24 384,30 kr/kg
Litli karfi 10.9.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 10.9.24 21,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

10.9.24 Ísak AK 67 Þorskfisknet
Þorskur 637 kg
Ýsa 22 kg
Karfi 6 kg
Samtals 665 kg
10.9.24 Jónína Brynja ÍS 55 Lína
Ýsa 2.933 kg
Þorskur 276 kg
Hlýri 31 kg
Steinbítur 24 kg
Samtals 3.264 kg
10.9.24 Jóhanna ÁR 206 Plógur
Sæbjúga Au G 13.539 kg
Samtals 13.539 kg
10.9.24 Geir ÞH 150 Dragnót
Ýsa 13.193 kg
Skarkoli 513 kg
Steinbítur 134 kg
Þorskur 97 kg
Samtals 13.937 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 10.9.24 495,47 kr/kg
Þorskur, slægður 10.9.24 304,39 kr/kg
Ýsa, óslægð 10.9.24 302,89 kr/kg
Ýsa, slægð 10.9.24 290,73 kr/kg
Ufsi, óslægður 10.9.24 112,65 kr/kg
Ufsi, slægður 10.9.24 266,93 kr/kg
Djúpkarfi 21.6.24 304,40 kr/kg
Gullkarfi 10.9.24 384,30 kr/kg
Litli karfi 10.9.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 10.9.24 21,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

10.9.24 Ísak AK 67 Þorskfisknet
Þorskur 637 kg
Ýsa 22 kg
Karfi 6 kg
Samtals 665 kg
10.9.24 Jónína Brynja ÍS 55 Lína
Ýsa 2.933 kg
Þorskur 276 kg
Hlýri 31 kg
Steinbítur 24 kg
Samtals 3.264 kg
10.9.24 Jóhanna ÁR 206 Plógur
Sæbjúga Au G 13.539 kg
Samtals 13.539 kg
10.9.24 Geir ÞH 150 Dragnót
Ýsa 13.193 kg
Skarkoli 513 kg
Steinbítur 134 kg
Þorskur 97 kg
Samtals 13.937 kg

Skoða allar landanir »