Nýlega var úthlutað úr Rannsóknasjóði Íslands styrkjum til nýrra rannsóknaverkefna fyrir árið 2022. Um er að ræða stærstu úthlutun sjóðsins frá upphafi.
Hafrannsóknastofnun vekur athygli á því á vef sínum að Julian Mariano Burgos, sérfræðingur hjá stofnuninni hafi hlotið styrk úr Verkefnissjóði í verkefnið „Kóralþörungar á kaldsjávarsvæðum: Úrbreiðsla og vistfræði við Ísland“.
Fram kemur á vef Rannís að verkefnið hlaut tæplega 19 milljónir króna og eru frá Hafrannsóknastofnun í verkefninu, auk Julians, Karl Gunnarsson, Steinunn H. Ólafsdóttir, Lilja Gunnarsdóttir og Laure de Montety. Þar að auki taka þátt, Juliet Brodie, frá Natural History Museum í London og Kjartan Thors, jarðfræðingur sem ráðgjafi.
Þá fer Hildur Magnúsdóttir hjá tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum fyrir verkefninu „Þróun og vistfræðilegt samspil sjávarsnigla og sníkjudýra þeirra“ sem hlaut nýdoktorsstyrk sem nemur 12 milljónum króna.
Marion Dellinger hjá Háskólanum á Hólum hlaut 7,7 milljóna doktorsnemastyrk fyrir verkefnið „Samþætting vist-, þróunar- og þroskunarfræðilegra þátta rýmisgreindar og persónuleika samsvæða bleikjuafbrigða“. Var hún ekki ein um að hafa áhuga á bleikjunni en Rosanne Beukeboom hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands hlaut einnig 7,7 milljónir vegna verkefnisins „Samanburður á einstaklingseinkennum sem metin eru á rannsóknarstofu og úti í náttúrunni, og áhrif þeirra á hreyfingu og lífslíkur bleikja“.