Karlmaður fannst látinn í sjónum við Sólfarið í Reykjavík í dag. Þetta staðfestir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
Fram kemur í tilkynningu sem barst frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að um sé að ræða skipverja sem leitað var að fyrr í dag og að hann hafi fundist um hálftvö. Leit hafði þá staðið yfir eftir að tilkynnt var um mannlausan bát, sem fannst í fjörunni í Engey á ellefta tímanum í morgun.
Lögreglan kveðst ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu þar sem málið er til rannsóknar.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í dag ábending um að bátur væri hugsanlega strandaður við Engey, en engar upplýsingar voru í kerfum Landhelgisgæslunnar þess efnis að bátur hefði farið á sjó eða væri strandaður við Engey.
Við athugun hafi komið í ljós að bátur væri við Engey og að einn væri um borð. Þegar björgunarbáturinn Gróa Pétursdóttir mætti á staðinn fannst báturinn hins vegar mannlaus og við það hófst umfangsmikil leit að skipverjanum.
Voru björgunarsveitarmenn kallaðir út frá Kjalarnesi, Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði og tóku þeir þátt í leitinni ásamt þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og lögreglu.
Um klukkan tvö var tilkynnt að leit væri lokið og skipverjinn væri fundinn.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfesti í dag að lík hefði fundist við Sólfarið en vildi þá ekki segja til um hvort um væri að ræða skipverjann sem leitað var að. Það var þó staðfest í fyrrnefndri tilkynningu frá lögreglunni.
Fréttin hefur verið uppfærð