Jón Kjartansson SU-111, uppsjávarskip Eskju hf. á Eskifirði, þurfti að stöðva veiðar á kolmunnamiðunum suðaustur af Færeyjum í nótt eftir að veiðarfærin festust í hliðarskrúfu skipsins. Aðalsteinn Jónsson SU-11, sem Eskja gerir einnig út, tók systurskipið í tóg og dróg það til Vág á Suðurey í Færeyjum.
„Þetta var ekkert alvarlegt. Við fengum trollbelginn í hliðarskrúfuna og gátum þar af leiðandi ekki kúplað aðalskrúfuna inn, þá hefðum við fengið í hana líka,“ útskýrir Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni, er blaðamaður skellir á þráðinn.
Spurður hvort þurfi að grípa til einhverra viðgerða segir Grétar ekki um flókna aðgerð að ræða. „Það verður bara skorið úr og förum svo væntanlega heim að landa. Erum með fullan bát. Það er búin að vera fínasta veiði bara. Fengum þennan afla í fjórum hölum. Eitthvað milli 1.900 og 2.000 tonn og vantar bara um 100 til 200 tonn til að fylla.“
Aðalsteinn Jónsson er nú á leið aftur á kolmunnamiðin suðaustur af Færeyjum, við lögsögu Bretlands. Jón Kjartansson er enn staddur í Færeyjum, en mun halda til Eskifjarðar um leið og tækifæri gefst.