Heildarafli íslenskra fiskiskipa í apríl nam rúmlega 111 þúsund tonnum sem er fjögur þúsund tonnum minni afli en í apríl á síðasta ári, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands. Þar segir að botnfiskafli hafi verið um 45 þúsund tonn en var rúmlega 47 þúsund tonn sama mánuð í fyrra.
Af botnfisktegundum var þorskaflinn rúm 23 þúsund tonn sem er 1% aukning frá apríl 2021. Mesta aukningin var í ufsa og jókst um 54% og nam aflinn í apríl síðastliðnum 8.666 tonnum. Þá var 29% samdráttur í karfa og 15% í ýsu.
Af uppsjávartegundum veiddist nær eingöngu kolmunni, tæp 63 þúsund tonn, en loðnuvertíðinni lauk í mars og makrílvertíðinni ekki enn hafin.
Á tólf mánaða tímabili frá maí 2021 til apríl 2022 var heildarafli fiskiskipaflotans tæplega 1.480 þúsund tonn sem er 34% meira en landað var 12 mánuðina á undan. Skiptir þar loðnan mestu máli þar sem aflinn jókst um rúmlega 450 þúsund tonn. Botnsjávaraflinn dróst hins vegar saman um 7% á sama tíma.