Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði veitti alls 29 milljónir króna í styrki í ár samkvæmt samþykkt aðalfundar sem fór nýverið fram.
Fram kemur í færslu á vef Loðnuvinnslunnar að ungmennafélagið Leiknir fær hæsta styrkinn, eða 15 milljónir til íþrótta- og æskulýðsstarfa. „Þetta er frábær styrkur og gefur okkur möguleika á að efla allra handa íþróttastarfsemi innan félagsins,“ segir Vilberg Marinó Jónasson, er formaður Leiknis, í færslunni.
Þá fær starfsmannafélag fyrirtækisins 7 milljónir króna og mun félagið nýta styrkinn til að niðurgreiða árlega starfsmannaferð.
Björgunarsveitin fær Geisli 5 milljóna króna styrk til kaupa á nýjum björgunarbát, en báturinn er enn í smíðum í Noregi og verður afhentur Geisla í byrjun júlí. „Svona styrkur hefur mjög mikil áhrif, ekki bara á fjármálahliðina heldur tökum við þessu líka sem klappi á bakið, við þá ástríðu að hafa til umráða sem öflugasta búnað til hjálpar fyrir samborgara okkar ef slys yrði,“ er haft eftir Grétari Helga, formanni Geisla.
Félag um Franska daga á Fáskrúðsfirði hlaut 1,5 milljón króna í styrk og annað eins frá Kaupfélaginu. Jafnframt fær Félag áhugafólks um fornleifar á Stöðvarfirði 500 þúsund króna styrk til áframhaldandi starfs.