Björgunarsveit í Hafnarfirði var kölluð út snemma í morgun vegna vélarvana báts sem rak hratt að landi. Einn var um borð í bátnum en hann var staddur um 1,5 kílómetra frá landi rétt vestur af Straumsvík. Um hálftíma eftir að útkall barst var björgunarbátur frá Hafnarfirði komin á vettvang og náði áhöfn hans að taka vélarvana bátinn í tog og draga hann til hafnar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbjörg.
Þar segir að mikill forgangur hafi verið á útkallinu vegna þess að bátinn rak hratt að landi.
„Allt gekk þó vel og var hann komin til hafnar klukkutíma eftir að kallað hafði verið eftir aðstoð.“