Samgöngustofa hefur sent frá sér fimmta veggspjaldið undir merkjum 12 hnúta sem ætlað er að minna á mikilvæg öryggisatriði á sjó og fækka slysum. Að þessu sinni er fjallað um þá hættu sem stafar af þekkingarleysi við störf á sjó.
„Sá sem er tilbúinn að afla sér þekkingar er líklegri til að tryggja öryggi sitt og félaga sinna og það ber vott um sjálfsöryggi og skynsemi að fólk sé óhrætt við að viðurkenna vanþekkingu sína og afla sér vitneskju,“ segir í tilkynningu frá Samgöngustofu.
Á spjaldinu eru nefnd ýmis fyrirbyggjandi atriði og er í þar mikilvægast að fólk fylgi ætíð nýjustu reglum og leiðbeiningum. „Að sjómenn spyrji ef þeir vita ekki og að menn giski ekki - heldur séu vissir. Fram kemur einnig mikilvægi þess að sjómenn taki ávallt þátt í þjálfun og endurmenntun því enginn telst fullnuma – sama hver reynslan er,“ segir í tilkynningunni.