Gengur sáttur frá borði eftir hálfa öld á sjó

Sveinbjörn Orri Jóhannsson (t.h.) með fjölskyldunni á Flórída. Hann kveðst …
Sveinbjörn Orri Jóhannsson (t.h.) með fjölskyldunni á Flórída. Hann kveðst ganga sáttur frá borði eftir meira en hálfa öld á sjó og segir nú tækifæri til að sinna golfinu og barnabörnunum. Ljósmynd/Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir

Sveinbjörn Orri Jóhannsson, annar stýrimaður á Gullver NS frá Seyðisfirði, gengur frá borði í þessum mánuði og þar með verður bundinn endir á  hálfrar aldar sjómannsferil, en hann fór fyrst á sjó aðeins 9 ára fyrir tæpum 57 árum. Hann kveðst hafa á ferlinum verið heppinn með samstarfsfélaga á öllum bátum og hjá öllum útgerðum. Tíminn á sjó hafi verið mjög skemmtilegur en Sveinbjörn viðurkennir að sjómennskan krafðist þess að hann missti aðeins af uppeldi barnanna. Nú gefist þó tækifæri til að sinna barnabörnunum.

Beðinn um að rifja upp upphaf ferilsins, segist Sveinbjörn ekki hafa haft áhuga á öðru sem krakki en að fara á sjó. „Ég byrjaði á að fara með pabba mínum 1965 á Gullberginu frá Seyðisfirði. Þá var ég bara níu ára gamall að verða. Var með honum á síld og fór á hverju sumri með honum og alltaf á síld. Þegar ég var 10 ára líklega, vorum við á því sem kallað var suðurlandssíld. Þá var maður að heiman í um einn og hálfan mánuð. Fór um miðjan júní og kom ekki aftur fyrr en um verslunarmannahelgi. Ég hefði viljað verið lengur en því miður var úthaldið ekki lengra.“

Gullver NS kemur til Seyðisfjarðar í mars síðastliðnum.
Gullver NS kemur til Seyðisfjarðar í mars síðastliðnum. Ljósmynd/Síldarvinnslan/Ómar Bogason

„Þetta var nú kannski ekkert óalgengt á þessum árum, að strákar færu með feðrum sínum á sjó. Það var alltaf eitthvað um það en ég sótti alltaf fast í að fara á hverju sumri og líkaði mjög vel. Þetta var svakalega gaman og maður kynntist mörgum.“

Strax og hann hafði aldur til, byrjaði hann að fara á sjó sjálfur. „1972 byrjaði ég á Ólafi Magnússyni á Akureyri, hjá þeim mikla öðlingi, Gunnari Jóhannssyni, sem var skipstjóri. Það var mjög gott fyrir unga menn að byrja sjómannsferilinn hjá honum, hann fór vel með unga stráka. Ég byrjaði um sumarið og var til haustsins og átti þá að fara í skóla. En þá var nýbúið að kaupa 250 tonna bát heim og vantaði mann þar. Ég ætlaði að fara einn túr, en svo ílengdist ég fram að áramótum þannig að það varð ekki mikið af skólagöngunni.“

Tekin árið 1966 um borð á Gullbergi Ns 11 norðan …
Tekin árið 1966 um borð á Gullbergi Ns 11 norðan við Jan Mayen. Sveinbjörn Orri situr í fanginu á Guðjóni Ármanni Einarssyni sem var lengi formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins. Morgunblaðið á borðinu fyrir framan þá. Ljósmynd/Úr safni Sólveigar Sigurðardóttur

Skemmtilegast á Seley

Sveinbjörn lét veturinn 1973 reyna á að starfa í bræðslunni á loðnuvertíð sem hann segir í raun hafa verið fyrsta vertíðin sem var brætt í miklu magni á Seyðisfirði. „Síðan fór ég aftur um vorið aftur á Ólaf Magnússon. Hann var mest gerður út frá Seyðisfirði, því útgerðin átti frystihús þar, og lönduðum mikið þar. Síldinni var líka landað þar.“

Hann lét einnig reyna á færi og línu á 12 tonna bát en ákvað veturinn 1976 að fara í stýrimannaskólann í Reykjavík. Hann lauk því námi þó ekki um leið og hélt aftur á sjó með Ólafi Magnússyni. Var Sveinbjörn þó ákveðinn í að ljúka náminu og fór 1978 í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og kláraði vorið 1979. „Svo fór ég aftur á Ólaf. Þar var gott að vera,“ segir Sveinbjörn og hlær.

Hann dokaði þó ekki lengi við þar. Hann fékk stöðu sem annar stýrimaður á Seley SU og svo stýrimaður 1980.

„Þar var mikill og góður skipstjóri sem hét Ingvi Hrafn og ég var með honum alveg þangað til báturinn var seldur '83. Ég fylgdi honum síðan niður á Fáskrúðsfjörð og var með honum á bát sem hét Sæbjörg. Svo fórum við áhöfnin mörg haust á bát frá sömu útgerð, sem hét Guðmundur Kristinn. Fórum alltaf á þessa innfjarðarsíld sem var alveg uppi í fjörunni. Þetta hefur líklega verið um fjögur haust og þetta var alveg feykilega gaman. Þetta var skemmtilegasti tíminn í þessari sjómennsku hjá mér. Það veiddist vel og við vorum fljótir að ná þessum skammti okkar og þetta var stór og góður bátur miðað við það sem þá var.“

Sveinbjörn hóf ferilinn formlega á Ólafi Magnússyni EA 250.
Sveinbjörn hóf ferilinn formlega á Ólafi Magnússyni EA 250. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Svo leiddi eitt af öðru og í kringum '85 komst Sveinbjörn á togarann Gullbergið. Hann stoppaði þó stutt og gerðist stýrimaður á loðnubátnum Keflvíkingi 1986. „Hann var bara gerður út á loðnuvertíðinni. Það voru alltaf svo mörg pláss á þessum tíma og maður var alltaf að fara á milli, nóg að gera í afleysingum. Þetta var alveg óhemju fjöldi, alveg 52 loðnubátar.

Ég var þarna í um tvö ár og fór síðan til Hraðfrystihúss Eskifjarðar til Alla ríka. Var þá stýrimaður á Guðrúnu Þorkelsdóttur með þeim mikla sómamanni, Ísaki Valdimarssyni. Skipið fór í gegnum miklar breytingar í Póllandi 1996 og við komum aftur með skipinu 1997. Okkar samvinna hélst alveg til 2001. Þá fórum við Ísak yfir á Þórshöfn, vorum þar á síld og loðnu um sumarið og svo lá leið okkar yfir á Örninn KE.“

Árið 2004 var farið á Beiti en að loknu einu og hálfu ári fékk Sveinbjörn pláss á Gullveri NS. „Þar hef ég verið síðan og ætla að ljúka ferlinum hér.“

Árið 2005 um borð á Gullver NS 12. Þar sem …
Árið 2005 um borð á Gullver NS 12. Þar sem Orri er að ljúka störfum. Ljósmynd/Rúnar Eiríksson

Með góðum mönnum

Beðinn um að líta um öxl og velta fyrir sér þeim breytingum sem orðið hafa frá því hann hóf að sækja sjóinn, svarar Sveinbjörn: „Sjómannsstarfið er, eins og allir vita, ekki léttasta starf í heimi en þetta er búinn að vera mjög skemmtilegur tími. Maður valdi sér þetta sem krakki og maður varð að lifa með því. Það koma mjög skemmtilegir tímar en eins og alltaf er eru dökkir dagar inn á milli. Þetta er leiðinlegt í vitlausum veðrum, þá er þetta ekkert voðalega spennandi. En maður er alltaf búinn að vera með góðum mönnum og mjög góðum útgerðum.“

„Það var ekkert kvótakerfi þegar ég byrjaði, þá var allt frjálst. Það hefur margt breyst síðan þá. Kvótakerfið er svo sem gott í grunninn en það er ýmislegt sem þyrfti að laga og er alltaf verið að lagfæra það. Það er ekkert launungarmál að einhvern veginn verðum við að stýra sókninni og við höfum ekkert betra við að styðjast en það sem fiskifræðingarnir segja. Það er þó vísindalegt sem þeir segja og svo geta menn haft sína skoðun á því.“

Sveinbjörn kveðst hafa verið svo lánsamur að hafa aldrei verið um borð í skipi þar sem maður hefur farist, en vissulega hafi komið fyrir að einhver hafi meitt sig. Varla er við öðru að búast á hálfri öld. „Það hefur margt breyst frá því ég byrjaði. Skipin stærri og betri. Allur aðbúnaður er mun betri í dag en áður var. Um borð í þessum nýju, stóru skipum er þetta bara eins og fimm stjörnu hótel. Svo hefur sem betur fer mikið breyst með tilkomu Slysavarnaskólans. Þegar ég var að byrja fórust því miður allt of margir menn á sjó og það er orðið nánast óþekkt.“

Það að færri farast og slysum fækkar, er ekki síður að þakka vönduðum vinnubrögðum sjómanna að sögn Sveinbjarnar. „Íslenskir sjómenn eru mjög hátt skrifaðir sem sjómannsstétt. Við getum verið stolt af íslenskum sjómönnum.“

Guðrún Þorkelsdóttir SU 211.
Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. Ljósmynd/Snorri Snorrason

Annar andi um borð

Afþreyingin og samveran um borð hefur breyst mikið á 50 árum, segir Sveinbjörn. „Þá var bara útvarp og sjónvarp. Sjónvarpið náði rétt út fyrir fjöruborðið og menn voru voðalega spenntir á kvöldin ef hægt var að horfa á sjónvarpið. En eins og þetta er í dag eru menn í símasambandi allan túrinn, menn getaverið með tölvurnar sínar og svoleiðis. Það hefur dottið niður að menn þurfi að stytta sér stundir um borð sjálfir. Þá var mikið spilað og einhvern veginn fannst mér samheldnin meiri. En kannski er maður bara af þessum gamla skóla og er ég bara sáttur við það,“ segir Sveinbjörn og hlær.

„En andinn um borð er annar en þegar maður byrjaði. Símarnir byrjuðu ekki að koma um borð fyrr en upp úr 1985 og það breytti miklu, maður var í miklu betra sambandi við fjölskylduna. Það var auðvitað af hinu góða og ég ætla ekki að neita því. Ég man þegar pabbi fór frá Seyðisfirði til Vestmannaeyja á vertíð annan eða þriðja janúar og var þar fram í maí. Hann var nú duglegur að senda okkur póstkort, en það voru allar fréttirnar sem maður hafði af honum alla vertíðina. Það var ekkert hringt heim á hverjum degi eins og í dag.“

Sáttur frá borði

Sveinbjörn segist ganga sáttur frá borði. „Maður er loksins búinn að átta sig á að það er til líf eftir sjómennskuna. Maður hélt lengi að það væri ekki til en ég sé að það er til. Ég hætti um miðjan júní og þá eru komin fimmtíu ár. Ég ætla að láta það duga. Snúa mér að því sem gaman er, spila golf og sinna barnabörnunum – er það ekki það dæmigerða sem menn segja við starfslokin?“ segir hann og hlær.

„Þegar maður er í þessu, fer uppeldi barnanna svolítið framhjá manni og lendir oft á konunni. Þá er ágætt að getað hjálpað til við að ala upp barnabörnin.“ Þá sé ekki verra að spilla barnabörnunum aðeins líka. „Það er nú kosturinn, maður gerir þau alveg vitlaus og svo hendir maður þeim bara aftur í fangið á foreldrum sínum.“

Með golffélögunum Lárusi Bjarnasyni sýslumanni og Ómari Bogasyni rekstrarstjóra bolfisks …
Með golffélögunum Lárusi Bjarnasyni sýslumanni og Ómari Bogasyni rekstrarstjóra bolfisks hjá Síldarvinnslunni á Islantilla golfvellinum á Spáni. Ljósmynd/Ómar Bogason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 30.6.22 414,10 kr/kg
Þorskur, slægður 30.6.22 477,87 kr/kg
Ýsa, óslægð 30.6.22 380,07 kr/kg
Ýsa, slægð 30.6.22 434,48 kr/kg
Ufsi, óslægður 30.6.22 215,79 kr/kg
Ufsi, slægður 30.6.22 236,72 kr/kg
Djúpkarfi 22.6.22 177,00 kr/kg
Gullkarfi 30.6.22 222,23 kr/kg
Litli karfi 20.6.22 14,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 16.6.22 258,90 kr/kg

Fleiri tegundir »

30.6.22 Ásbjörn SF-123 Handfæri
Ufsi 1.144 kg
Þorskur 755 kg
Samtals 1.899 kg
30.6.22 Arelí SF-110 Handfæri
Þorskur 826 kg
Ufsi 226 kg
Ýsa 6 kg
Gullkarfi 1 kg
Samtals 1.059 kg
30.6.22 Elli SF-071 Handfæri
Þorskur 771 kg
Ufsi 527 kg
Samtals 1.298 kg
30.6.22 Kalli SF-144 Handfæri
Þorskur 335 kg
Ufsi 276 kg
Samtals 611 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 30.6.22 414,10 kr/kg
Þorskur, slægður 30.6.22 477,87 kr/kg
Ýsa, óslægð 30.6.22 380,07 kr/kg
Ýsa, slægð 30.6.22 434,48 kr/kg
Ufsi, óslægður 30.6.22 215,79 kr/kg
Ufsi, slægður 30.6.22 236,72 kr/kg
Djúpkarfi 22.6.22 177,00 kr/kg
Gullkarfi 30.6.22 222,23 kr/kg
Litli karfi 20.6.22 14,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 16.6.22 258,90 kr/kg

Fleiri tegundir »

30.6.22 Ásbjörn SF-123 Handfæri
Ufsi 1.144 kg
Þorskur 755 kg
Samtals 1.899 kg
30.6.22 Arelí SF-110 Handfæri
Þorskur 826 kg
Ufsi 226 kg
Ýsa 6 kg
Gullkarfi 1 kg
Samtals 1.059 kg
30.6.22 Elli SF-071 Handfæri
Þorskur 771 kg
Ufsi 527 kg
Samtals 1.298 kg
30.6.22 Kalli SF-144 Handfæri
Þorskur 335 kg
Ufsi 276 kg
Samtals 611 kg

Skoða allar landanir »