Ríkharður Jón Stefánsson Zöega er með kröftugri mönnum. Kokkur á Bergey VE og ekki á því að hætta á næstunni þrátt fyrir árin 63. Tvisvar fengið gula spjaldið og einu sinni var stutt í það rauða en var bjargað á hjartadeild Landspítalans. Virkur í félagsstarfi, málar og sinnir barnabörnunum í inniverum, ein aðaldriffjöðrin í Sjómannadagsráði, alltaf tilbúinn að hjálpa og vinnur að því að koma upp minnismerki um drukknaða sjómenn frá Eyjum. Og enginn segir heldur nei þegar Rikki biður um pening til að klára það sem hann er með á prjónunum.
Rikki kom frá Reykjavík til Vestmannaeyja sumarið sem hann var fjórtán ára gamall og alkominn 15 ára. Byrjaði í Ísfélaginu, fór í útskipanir, landaði úr togurum og launin góð. Byrjaði að leysa af á Vestmannaey VE árið 1978, verkstjóri í Ísfélaginu í stuttan tíma en hefur verið á sjó frá árinu 1979. Fyrst sem háseti en leiðin lá í eldhúsið. „Fyrst í afleysingum en var hent í djúpu laugina í fyrsta túr eftir sjómannadag. Ég svaf ekki nóttina áður en fljótt lærði maður að vera skipulagður og ekki verra að hafa bæði plan A og B,“ segir Rikki.
Hann hefur lengi haldið tryggð við útgerðarfélagið Berg-Hugin ehf. og er nú á Bergey númer tvö sem kom ný frá Noregi 2020. „Mér hefur alltaf líkað vel hjá þeim og það breyttist ekkert þegar Síldarvinnslan keypti félagið. Kvótinn er meiri og tekjurnar hærri. Mjög gott að vera hjá þeim, allt til fyrirmyndar og Gunnþór framkvæmdastjóri mjög fínn og það var Maggi Kristins líka. Gott starfsfólk bæði hér og fyrir austan.“
Rikki gefur ekki tommu eftir á sjónum, kokkar í karlana og er alltaf fyrstur í aðgerð. Hann segir alla vinnu léttari í dag og það hafi verið mikið framfaraskref þegar sjómenn sluppu við að landa aflanum. „Erum lausir um leið og við komum í land og karlar í landi sjá um að landa. Mikil breyting til hins betra.“
Hann segir líka aðstæður miklu betri í aðgerð og lest. „Í lestinni munar mestu að sprauta krapi í fiskikörin til kælingar í staðinn fyrir ísinn sem tekinn var í landi og þurfti að höggva niður þegar leið á túrinn. Allt byggist þetta á að skila sem bestri vöru í land. Klöppum hverjum fiski. Þetta eru launin okkar, því betri fiskur, því hærra verð.“
Aldur er afstæður og Rikki er talandi dæmi um það, verður 63 ára í nóvember og ekkert á þeim buxunum að hætta. „Nei, ég sé enga ástæðu til þess á meðan maður hefur heilsu og gaman af,“ segir Rikki sem hefur tvisvar fengið gula spjaldið og síðast var stutt í það rauða.
Rikki fékk tvisvar væg hjartaáföll en það stóð tæpt í því þriðja, árið 2011. „Við vorum suður af Eyjum í kolvitlausu veðri. Ég fæ rosalegan verk í brjóstið, eins og hnífi væri stungið í brjóstið. Tíu metra ölduhæð og 25 metrar að suðvestan, aðgæsluveður og við að dóla í land. Lét engan vita, vildi ekki setja skip og áhöfn í hættu og fór beint í koju. Hringdi í konuna og dæturnar. Var eiginlega að kveðja. Þetta var bara búið. Mér leið best í barnastellingunni og náði að sofna. Hét um leið að kæmist lifandi í land ætlaði ég upp á spítala,“ segir Rikki sem vaknar eftir að í land er komið. Ennþá með verk. „Ég byrja á að fá mér kaffi og Camel. Hugsaði; – þú verður að fara upp eftir, sem ég gerði og var sendur á núll einni til Reykjavíkur í aðgerð.“
Lífi Rikka var bjargað á hjartadeild á Landspítalans en hann er með skemmd í hjarta. „Þegar ég vaknaði var ég spurður hvort ég reykti. Ég sagði: Já, það hef ég gert í 38 ár. Þá sagði læknirinn: Til hamingju Rikki, þú ert hættur. Ég hef ekki tekið einn smók síðan! Í landi labba ég mikið til að halda mér gangandi,“ segir Rikki og aðgerðin var stór. Skipt um þrjár æðar og er hann þakklátur læknum að bjarga lífi hans.
Þá að fjölskyldunni. Rikki býr með Matthildi Einarsdóttur og eiga þau dæturnar Fjólu Sif og Guðbjörgu Erlu og barnabörnin eru sex. Þeir sem þekkja Rikka vita að honum er annt um fjölskylduna og ekki síst barnabörnin.
„Peyjarnir, Sveinn Jörundur og nafni minn Rikki, eru með mér alla inniveruna. Ég er líka að mála og nota inniverur og frí til að sinna listinni. Byrjaði þegar ég var hjá Sigfúsi Halldórssyni, tónskáldi og teikni- og tónlistarkennara í Langholtsskóla. Þetta voru bestu tímarnir, Sigfús við píanóið og söng og við að mála og teikna. Byrjaði eftir nokkurt hlé og finnst gott að skella í eina mynd á milli túra,“ segir Rikki sem er í góðum félagsskap í Hvíta húsinu þar sem Myndlistarfélag Vestmannaeyja er með aðstöðu.
Rikki er ein helsta driffjöður Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja. Er allt árið að spá í hvað megi gera til gera sjómannadagshátíðina sem glæsilegasta og lætur verkin tala. „Ég byrjaði fyrir 20 árum. Við gerum ýmislegt til að létta okkur undirbúninginn. Vinnum mest sjálfir og tekjur höfum við af merkjasölu og Sjómannadagsblaðinu sem er stórglæsilegt. Blaðinu er dreift frítt í öll hús í Eyjum og einhver blöð fara upp á land. Allt unnið í sjálfboðaliðsvinnu.“
Í fyrra hringdi Rikki í frænda sinn, Guðna Th. Jóhannesson forseta, og spurði hvort hann væri til í að flytja hátíðarræðu sjómannadagsins. „Hann bað mig að hinkra og spurði svo hvort ekki væri lagi að konan kæmi í hans stað. Hann var búinn að ráðstafa sér í annað. Ég hélt það nú og var bæði heiður og gaman að fá forsetafrúna, Elizu Reed, í heimsókn. Hún var með okkur alla helgina og fór víða. Mætti í skötuveislu Sjómannadagsráðs sem á sér áratuga hefð,“ segir Rikki sem er í hálfs mánaðar fríi frá sjónum til að undirbúa sjómanndaginn.
Rikki er mikil félagsvera, er í Kiwanis, Myndlistarfélaginu og tók sextánda sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnarkosningunum og er kallaður Rikki sextándi. „Þegar konan frétti þetta sagði hún: Í alvöru Rikki, ertu kominn í framboð líka? Segi alltaf já við öllu,“ segir Rikki sem gengur flestum betur að afla peninga fyrir hin ýmsu verkefni.
„Það gengur miklu betur en áður. Eyjamenn eru jákvæðir og vilja vinna saman. Hér vil ég búa, fann það strax þegar ég kom til Eyja. Þetta er minn staður,“ segir Rikki sem undirbýr gerð minnismerkis með nöfnum allra Eyjamanna sem farist hafa á sjó og byggir á heimildum allt frá árinu 1200. Það verður vígt á næsta ári.
Viðtalið við Rikka var fyrst birt í sjómannadagsblaði 200 mílna 11. júní.