„Gott fyrir samfélagið að íbúarnir geti valið úr vinnustöðum“

Ásdís Helga við stýrið á lyftaranum en Olga Gísladóttir vinnslustjóri …
Ásdís Helga við stýrið á lyftaranum en Olga Gísladóttir vinnslustjóri stendur við karið. Olga segir landeldið hafa mikla kosti. Ljósmynd/Samherji fiskeldi

Landeldisstöð Samherja í Öxarfirði á sér langa sögu en stöðin, sem áður hét Silfurstjarnan, hefur verið leiðandi í eldi nýrra tegunda á borð við lúðu, sandhverfu og bleikju. Undanfarin ár hefur stöðin einkum ræktað lax og bleikju en í dag er lax í öllum kerjum og eldisstöðin í hópi þeirra stærstu sem ala lax á landi.

Olga Gísladóttir er vinnslu- og gæðastjóri eldisstöðvarinnar og hefur fylgt fyrirtækinu hér um bil frá upphafi, en Samherji keypti reksturinn af Hraðfrystistöð Þórshafnar árið 2000. „Björn Benediktsson, oddviti í Öxafjarðarhreppi gamla, og Stefán Valgeirsson þingmaður komu því til leiðar að eldisstöðin var reist á sínum tíma, en það var okkar lukkupeningur að Samherji kom hingað inn og breyttist reksturinn til batnaðar, og auðveldara varð að fá fjármagn til að ráðast í endurbætur og betrumbætur. Vitaskuld hefur alltaf verið agi í rekstrinum og allt gert til að standa við gerðar áætlanir en með Samherja á bak við félagið varð þetta allt saman léttara á margan hátt.“

Gengur snurðulaust fyrir sig

Stöðin framleiðir að jafnaði 30 tonn á viku og er slátrað þrjá daga vikunnar en starfsmenn eru í dag 27 talsins og sinna að auki bleikjuseiðaeldisstöð sem fyrirtækið starfrækir á Sigtúnum skammt frá. Eitt af sérkennum stöðvarinnar er að hluti eldisins fer fram innandyra í 4.200 fermetra skemmu: „Skemman var byggð á sínum tíma til að hýsa eldi á flatfiski því hann er viðkvæmur og getur sólbrunnið undir berum himni,“ útskýrir Olga og bætir við að skemman hýsi í dag einnig fóðurkerfi eldisstöðvarinnar.

Olga segir það ekki svo flókið að skipta á milli tegunda en fiskeldisstöðin hefur aðgang að jarðhita og borholuvatni og getur fínstillt vaxtarskilyrðin eftir því hvaða tegund er arðbærast að rækta hverju sinni. „Við höfum nokkrum sinnum hætt í laxi, og nokkrum sinnum hætt í bleiku, en erum núna alfarið komin út í lax og ræðst það meðal annars af verðþróun á mörkuðum.“

Aðstæður til fiskeldis á landi eru heppilegar á svæðinu og …
Aðstæður til fiskeldis á landi eru heppilegar á svæðinu og aðgangur að bæði borholuvatni og jarðhita. Á myndinni má sjá skemmuna stóru sem áður hýsti eldi á flatfiski sem er viðkvæmur fyrir sól.

Landeldið hefur líka þann kost að minni líkur eru á óvæntum áföllum og þarf ekki að kvíða því að sníkjudýr berist í fiskinn. „Það er mjög lítið um áföll hjá okkur borið saman við sjóeldi og þá sjaldan sem eitthvað hefur gerst þá höfum við í mesta lagi misst fisk úr einu keri,“ útskýrir Olga. „Hefur það gerst örsjaldan að súrefnið í kerjunum hefur dottið niður vegna mannlegra mistaka. Mistökin eru til að læra af þeim og eitthvað sem getur hent alla, en ef eitthvað klikkar getur súrefnið í kvíunum klárast mjög hratt.“

Bendir Olga á að stöðin þurfi að vera viðbúin því að rafmagn geti farið af, enda hafi reynslan sýnt að dreifikerfið á Norðausturlandi dettur stundum út í lengri tíma. „Ég byrja störf hjá eldisstöðinni árið 1989 og síðan þá hefur það gerst tvisvar að rafmagnslaust hefur verið á svæðinu í meira en viku. Fyrst gerðist það haustið 1995 og núna aftur árið 2019 þegar staurar í línunni brotnuðu. Þess vegna erum við með öflugar díselrafstöðvar sem fara í gang um leið og rafmagnið fer af – annars væri ekki hægt að hafa þessa starfsemi hér.“

Væri gott að fá róbóta

Framundan eru betrumbætur á sláturhúsinu til að auka afköst og létta störfin.

„Slægingarvélin stjórnar í dag þeim tíma sem það tekur okkur að vinna fiskinn og fara þar að hámarki 16 fiskar í gegn á mínútu. Við erum núna að færa hluti til með það fyrir augum að geta slátrað beint inn í vinnsluna og vonandi að við vélvæðum þann hluta þar sem kössum er raðað á bretti. Í dag þurfum við að handraða um 550 kössum á dag sem hver um sig vega um 23 kg og væri gott að fá róbóta til að sjá um burðinn,“ segir Olga og bætir við að hún sé einstaklega heppin þegar kemur að því að hafa duglegt og samviskusamt fólk í vinnu hjá sér.

Með væna fiksa. Olga ásamt Arnari Frey Jónssyni, rekstr­ar­stjóra Fisk­eld­is …
Með væna fiksa. Olga ásamt Arnari Frey Jónssyni, rekstr­ar­stjóra Fisk­eld­is Sam­herja í Öxarf­irði. Ljósmynd/Samherji fiskeldi

Starfsfólkið kemur flest frá Kópaskeri en einnig úr sveitunum í kring og eru mörg þeirra af erlendum uppruna. „Þetta fólk á sín hús á Kópaskeri, sendir börnin sín í leik- og grunnskólann og er fyrir löngu orðið hluti af samfélaginu,“ segir Olga og neitar því þegar blaðamaður spyr hvort vinnustaðir á svæðinu standi frammi fyrir harðnandi samkeppni við ferðaþjónustu um lausar hendur.

„Ferðaþjónustan á þessu svæði er aðallega virk frá júní og fram í september og ef fullorðna fólkið í verksmiðjunni tekur að sér störf hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum yfir hásumarið þá koma skólakrakkarnir til starfa hjá fiskeldisstöðinni á meðan. Annars vill mitt starfsfólk upp til hópa vera í vinnunni á eðlilegum tíma á virkum dögum og fá frí um helgar en störfin í ferðaþjónustunni eru þess eðlis að fólk þarf helst að vera til taks allan sólarhringinn alla daga vikunnar ef því er að skipta.“

Húsnæðisverð hækkar vegna fiskeldis

Er samkeppnin frekar við aðrar eldisstöðvar sem hafa risið eða munu rísa á svæðinu, en Fiskeldi Austfjarða hefur byggt upp fiskeldis- og seiðaeldisstöð við Kópasker. „Við misstum nokkra starfsmenn yfir til þeirra og sé ég eftir því fólki, en um leið er gott fyrir samfélagið að íbúarnir geti valið úr vinnustöðum og er vöxtur fiskeldis að hafa mjög jákvæð áhrif á líf fólks á svæðinu. Ef ekki væri fyrir þessa starfsemi er ég hrædd um að það væru töluvert færri börn í grunnskólanum í Lundi.“

Virðist það fiskeldinu að þakka að fólk vill núna flytja til Kópaskers til að nýta atvinnutækifærin sem þar bjóðast og hefur það leitt til þess að verð íbúðarhúsnæðis í þorpinu hefur hækkað snarlega. „Einbýlishús sem áður var í mesta lagi hægt að vænta þess að fá 9 milljónir fyrir eru í dag að seljast á 20 milljónir og slegist um hvern kofa,“ segir Olga og bætir við að vinna sé hafin við tvö ný íbúðarhús á Kópaskeri. „Verðhækkunin þýðir að það er orðið aftur hagkvæmt að byggja á Kópaskeri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 501,21 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 371,38 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 197,72 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.4.24 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Steinbítur 8.181 kg
Þorskur 404 kg
Skarkoli 88 kg
Ýsa 78 kg
Samtals 8.751 kg
18.4.24 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Steinbítur 3.179 kg
Þorskur 460 kg
Skarkoli 160 kg
Ýsa 94 kg
Samtals 3.893 kg
18.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 1.581 kg
Ýsa 18 kg
Skarkoli 17 kg
Samtals 1.616 kg
18.4.24 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Steinbítur 923 kg
Ýsa 369 kg
Þorskur 199 kg
Hlýri 78 kg
Skarkoli 56 kg
Langa 25 kg
Ufsi 18 kg
Samtals 1.668 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 501,21 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 371,38 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 197,72 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.4.24 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Steinbítur 8.181 kg
Þorskur 404 kg
Skarkoli 88 kg
Ýsa 78 kg
Samtals 8.751 kg
18.4.24 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Steinbítur 3.179 kg
Þorskur 460 kg
Skarkoli 160 kg
Ýsa 94 kg
Samtals 3.893 kg
18.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 1.581 kg
Ýsa 18 kg
Skarkoli 17 kg
Samtals 1.616 kg
18.4.24 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Steinbítur 923 kg
Ýsa 369 kg
Þorskur 199 kg
Hlýri 78 kg
Skarkoli 56 kg
Langa 25 kg
Ufsi 18 kg
Samtals 1.668 kg

Skoða allar landanir »