Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir að vel megi hugsa sér að skipta því aflamarki sem ætlað er strandveiðum hlutfallslega á milli veiðisvæða eftir fjölda skráðra báta innan svæðis.
Þetta kemur fram í pistli hennar í Morgunblaðinu í dag.
Svandís hefur áður boðað breytt fyrirkomulag á skiptingu strandveiðipottsins og endurkomu svæðaskiptingar. Segir í pistli Svandísar að það sé miður að ekki hafi tekist að tryggja 48 daga til strandveiða fyrir hvern bát í sumar en strandveiðar voru stöðvaðar fyrir helgi.
Þá hafi veiði rétt svo verið að fara að taka við sér fyrir norðan land. Með hugmyndinni segist Svandís horfa til nýtingar á verðmætasta tímanum og sem jafnastrar skiptingar.