Sjókallinn hefur sannað nytsemi sína

„Tækið hefur komið mjög vel út, það er mjög sterkbyggt …
„Tækið hefur komið mjög vel út, það er mjög sterkbyggt og þolir vel þetta hnjask sem verður í daglegri notkun úti á sjó,“ segir Heimir Snær Gylfason um öryggistækið Sjókall. Ljósmyndir/Multitask

Það hefur tekið langan tíma að þróa og hanna öryggistækið Sjókall sem sendir frá sér skilaboð og staðsetningu þegar sjómaður lendir útbyrðis. Margir nota tækið en það er þó ekki jafn víða í notkun og maður myndi halda. Sjókall sýndi heldur betur nytsemi sína þegar skipverji á Víkingi AK féll útbyrðis í janúar síðastliðnum og komst lífs af með undraverðum hætti. Heimir Snær Gylfason, hjá fyrirtækinu Multitask í Neskaupstað, segir slysið hafa vakið athygli skipverja sem og útgerða á mikilvægi tækja af þessum toga.

Sjókall virkar þannig að um leið og hann kemst í saltvatn sendir hann strax merki um að það er neyð. Talstöðvar skipsins og á Vaktstöð siglinga, ef skipið er þannig staðsett að vaktsöðin sé innan drægni, fá þá skeyti um að það sé eitthvað að. Skipið fær meldingu – talstöðin verður alveg brjáluð í brúnni, það er ekki hægt að hundsa þetta og verður alltaf að kvitta fyrir skilaboðunum. Það fá allir þessi boð og verða allir varir við þetta. Allir eru strax meðvitaðir um að eitthvað hafi gerst og geta strax hafist handa við að átta sig á því hvern vantar, hvað sé í gangi og hvort einhver sé í vandræðum. Með næsta skeyti sem kemur er vonandi komin staðsetning og þá sést það á plotternum og hægt að bregðast við,“ útskýrir Heimir, spurður hvernig Sjókall virkar.

Mikilvægt er að tækið geti sýnt staðsetningu skipverja sem kann …
Mikilvægt er að tækið geti sýnt staðsetningu skipverja sem kann að hafa fallið útbyrðis. Ljósmyndir/Multitask

„Við erum að senda á AIS-tæki um borð í skipunum og svo erum við að senda á allar DSC-talstöðvar sem eru úti á sjó og í landi. Talstöðvarkerfið virkar á Vaktstöð siglinga og um borð í öllum fiskiskipum sem eru með veiðileyfi, enda skyldubúnaður og hefur ekki þurft sérstakan móttökubúnað.“

Hann segir staðsetninguna geta tekið allt að tvær mínútur að berast og fer það eftir kringumstæðunum hverju sinni, til að mynda sjólagi og hvort skipverji sé upp við skipið. „Það er náttúrulega verið að sækja upplýsingar upp í gervihnött. En alla jafna tekur ekki meira en 30 sekúndur að fá staðsetningu.“

Aukinn áhugi í kjölfar slyss

Sjókall er alltaf á vakt, allt frá því að tækið kemur úr framleiðslu og á það að geta verið virkt í fimm ár án þess að það sé þjónustað í samræmi við alþjóðlega staðla, segir Heimir. „Auðvitað er mælt með því að það sé prófað reglulega og athugað hvort það sé ekki örugglega að virka og í lagi. Þetta er öryggistæki og fær árlega öryggisskoðun, en það eru engar reglur sem skylda skoðunina sem er kannski óheppilegt. Því það er kominn slatti í notkun.“

Nú eru vel á fjórða hundrað tæki af nýjustu gerð í umferð en um þúsund tæki hafa verið seld ef lagðar eru saman fyrri útgáfan og sú seinni. Margir sem fjárfestu í fyrstu útgáfunni endurfjárfestu ekki í þeirri nýju, segir Heimir. Spurður hvers vegna það kunni að vera segir hann öryggisvitundina hafa dvínað smá þar sem svo fá slys hafa átt sér stað á undanförnum árum þar sem skipverji lendir útbyrðis. „Það er vísbending um að tekist hafi vel til í öryggismálum og er fagnaðarefni.“

Staðan breyttist hins vegar í kjölfar þess að skipverji á Víkingi AK lenti útbyrðis í janúar, en í viðtali við 200 mílur þakkaði hann Sjókalli fyrir að hafa getað sýnt skipstjóranum í brúnni staðsetningu sína. Gat því skipstjórinn leiðbeint færeysku skipi í grendinni sem aðstoðaði við björgunina. Komu svo starfsbræður skipverjans honum til bjargar á léttbáti Víkings og náðu honum úr sjónum. „Bæði skipverjar og útgerðir vöknuðu svolítið við þetta slys. Það hafa ekki verið nein slys og ekkert átak hjá tryggingafélögunum þar af leiðandi, ekki eins og þegar við vorum að byrja þegar TM var með átak vegna heilsu og öryggis manna, bæði á landi og á sjó.

Um leið og þetta slys varð fengum við fyrirspurnir. Bæði var verið að skoða að stofna til viðskipta og svo aðilar sem eru með tæki frá okkur að biðja okkur um að fara yfir tækin,“ segir Heimir.

Einnig í fiskeldi

Hann segir Sjókall ekki aðeins nýtast á stærri skipum og hafa nokkrir smábátasjómenn tekið tæki af gerðinni Auðbjörg á leigu. Smábátasjómenn eru oft einir á sjó og getur skipt sköpum að Vaktstöð siglinga fái skilaboð lendi þeir í sjónum. „Við höfum verið að bjóða smábátasjómönnum að leigja eldri Sjókall sem hefur farið aftur í umferð eða Auðbjörgu sem er bara AIS-neyðarsendir.“

Þá hafa tæki einnig verið seld til fiskeldisfyrirtækja í Færeyjum. „Þau keyptu til að fylgjast með starfsfólki sínu ef það skyldi fara í sjóinn, því þeir eru mikið að vinna einir úti við kvíarnar. Þetta eru líka stórar kvíar og taka ekki allir eftir því um leið ef einn vantar. Þetta skiptir líka máli þegar menn eru að ferðast frá höfn að kvíunum, það er farið í allskonar veðrum.“

Hann segir Multitask hafa áform um að stækka en það er ekki auðvelt þrátt fyrir að fyrirtækið hafi fengið aukna athygli.Við erum ekki með margt fólk til að vinna verkin hérna fyrir austan.“

Sjókall gæti einnig komið að góðum notum í fiskeldi, að …
Sjókall gæti einnig komið að góðum notum í fiskeldi, að sögn Heimis Snæs. Ljósmynd/Laxar

Frumkvæði Síldarvinnslunnar

En hvernig kom það til að hafist var handa að þróa Sjókall?

„Upphaflega byrjar þetta að frumkvæði Síldarvinnslunnar. Þá er komið að máli við mig og ég beðinn um að aðstoða þá. Nú hafi verið komið 2009 og það væri eitthvað óeðlilegt að ekki væri komið tæki sem gæti staðsett sjómann í sjó. Ég hugsaði það sama að það gæti nú bara ekki annað verið en að þetta væri til, en það gekk nú illa að finna.

Svo hringdi ég í góðan vin minn, Óskar Aðalbjörnsson hjá Sónar, við unnum saman í den. Þá gaf hann mér upp eitt leitarorð sem ég gæti prófað og fann ég þá framleiðanda í Ástralíu sem var nýbyrjaður að framleiða tæki sem á að uppfylla þesar kröfur sem við vorum að sækjast eftir. Þannig byrjar ævintýrið,“ svarar Heimir.

Þegar fram liðu stundir þótti tækið frá Ástralíu ekki nógu gott og skipti framleiðandinn um eigendur sem höfðu ekki mikinn áhuga á að halda samstarfinu áfram. Árið 2012 var því ákveðið að framleiða eigið tæki. „Þá tók fyrirtækið mikla beygju og fór að framleiða Sjókall í öðru veldi eins og við kölluðum það. Við vorum þrír menn sem ætluðum að sigra heiminn, en svo kláruðust peningarnir og áhuginn. Ég var orðinn einn eftir.

Með skipverjum á Berki NK-122 þegar fyrstu Sjókallar í öðru …
Með skipverjum á Berki NK-122 þegar fyrstu Sjókallar í öðru veldi voru afhentir. Ljósmyndir/Multitask

Árið 2015 ákvað ég að reyna að verða mér úti um meiri peninga til að geta haldið þessu verkefni áfram og fór á fullt í það. Multitask setti upp rafeindaverkstæði og byrjaði að þjónusta sjávarútveginn og hefur fjármagnað verkefnið með því.“

Frumkvöðullinn segir tækið hafa verið í stanslausri þróun frá 2012 og að tækið hafi tekið breytingum meðal annars í útliti. Öll hönnun og þróun hefur verið gerð í samstarfi við hagsmunaaðila, svo sem sjómenn, útgerðir, Vaktstöð siglinga, Landhelgisgæsluna og Póst- og fjarskiptastofnun (nú Fjarskiptastofa). „Við unnum þetta mjög náið með öllum hagsmunaaðilum. Það er líka mjög mikilvægt að við náðum að koma á mjög góðu samstarfi við Vaktstöð siglinga sem ætlað er að fylgjast með sjómönnunum okkar ef eitthvað kemur fyrir. Síðan kom krafa frá skipstjórnarmönnum um að fá að geta séð þetta á plotternum og á þeim tíma var það afskaplega erfitt að tengja talstöðvarnar inn á þann hugbúnað svo þetta sæist. Þá ákváðum við að fara í AIS-viðbótina. Síðan þróaðist hugbúnaðurinn og er AIS ekki jafn mikilvægur þáttur og var.“

Heimir kveðst ánægður með tækið eins og það er orðið í dag. „Tækið hefur komið mjög vel út, það er mjög sterkbyggt og þolir vel þetta hnjask sem verður í daglegri notkun úti á sjó.“

Smitaðist af föður sínum

Það er ekki bara áhuginn á tækni sem hvatt hefur Heimi Snæ Gylfason áfram í þróun Sjókallsins. „Þetta tengist líka því að faðir minn, Gylfi Gunnarsson, var sjómaður. Mér var sagt að nú væri ég að verða fullorðinn þegar ég var 10 ára og ætti að koma á sjóinn með honum og læra allt sem ég gæti lært af karlinum. Það má kannski segja að hann hafi verið frumkvöðull í ýmsum öryggismálum um borð hjá sér. Það var ekki verið að pæla jafn mikið í því alstaðar um 1990.

Hann innleiddi snemma hjálma hjá sér og innleiddi líka hólf um borð þannig að menn væru ekki að stíga í net og fara í sjóinn, hér hjá okkur á Norðfirði höfðu verið mjög vond slys einmitt út af því.“

Heimir kveðst líklega hafa smitast af áhuga föður síns á öryggismálum. „Svo hef ég kannski verið svolítið varkár alla tíð og hugað að öryggi mínu og þeirra sem eru í kringum mig. Bróðir minn, Unnar Þór, er búinn að brjóta held ég hvert einasta bein í líkama sínum,“ segir Heimir og hlær. „Maður er alltaf að reyna að passa karlinn, litla bróður sem er sjómaður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.4.24 456,52 kr/kg
Þorskur, slægður 23.4.24 531,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.4.24 237,59 kr/kg
Ýsa, slægð 22.4.24 130,57 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.4.24 194,31 kr/kg
Ufsi, slægður 22.4.24 233,45 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 22.4.24 189,26 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.4.24 Kaja ÞH 66 Grásleppunet
Grásleppa 1.403 kg
Þorskur 21 kg
Samtals 1.424 kg
23.4.24 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Steinbítur 4.243 kg
Þorskur 243 kg
Skarkoli 27 kg
Hlýri 12 kg
Samtals 4.525 kg
23.4.24 Kristinn ÞH 163 Grásleppunet
Grásleppa 1.765 kg
Þorskur 162 kg
Skarkoli 11 kg
Steinbítur 6 kg
Samtals 1.944 kg
23.4.24 Ósk ÞH 54 Grásleppunet
Grásleppa 653 kg
Þorskur 57 kg
Skarkoli 40 kg
Samtals 750 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.4.24 456,52 kr/kg
Þorskur, slægður 23.4.24 531,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.4.24 237,59 kr/kg
Ýsa, slægð 22.4.24 130,57 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.4.24 194,31 kr/kg
Ufsi, slægður 22.4.24 233,45 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 22.4.24 189,26 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.4.24 Kaja ÞH 66 Grásleppunet
Grásleppa 1.403 kg
Þorskur 21 kg
Samtals 1.424 kg
23.4.24 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Steinbítur 4.243 kg
Þorskur 243 kg
Skarkoli 27 kg
Hlýri 12 kg
Samtals 4.525 kg
23.4.24 Kristinn ÞH 163 Grásleppunet
Grásleppa 1.765 kg
Þorskur 162 kg
Skarkoli 11 kg
Steinbítur 6 kg
Samtals 1.944 kg
23.4.24 Ósk ÞH 54 Grásleppunet
Grásleppa 653 kg
Þorskur 57 kg
Skarkoli 40 kg
Samtals 750 kg

Skoða allar landanir »