Reynt verður öðru sinni að koma mjöldrunum Litlu Hvít og Litlu Grá fyrir í heimkynnum sínum í Klettsvík, á næstu dögum. Þetta segir Audrey Padgett, framkvæmdastjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Gengust þær stöllur undir sína síðustu læknisskoðun fyrir brottför nýverið og virðast vera tilbúnar að aðlagast aðstæðunum í afmarkaðri sjókví í Klettsvík, sem eru frábrugðnar því sem þær hafa þurft að venjast.
Mjaldrarnir höfðu allt sitt líf búið í skemmtigarði í Kína við bágar aðstæður, þar til þeir komu til Íslands sumarið 2020. Síðan þá hafa þeir meira og minna dvalið í umönnunarlaug í Þekkingarsetri Vestmannaeyja.