Eitt af þekktustu hvalveiðiskipum landsins, Hvalur 9 RE, kom til hafnar í Hvalfirði í gær með vænan hval. Að lokinni löndun hélt skipið á miðin á ný. Ásamt Hval 8 RE hefur skipið skilað töluverðum afla til vinnslu í hvalstöðinni.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.
Á yfirstandandi vertíð, til og með 1. ágúst, hefur Fiskistofu verið tilkynnt um veiði og löndun á 60 dýrum og eru það allt langreyðar. Samkvæmt svari Fiskistofu er stærð dýranna á bilinu 52 til 69 fet, eða tæplega 16 til 21 metri. Þá hefur öllum dýrum sem komið hefur verið með að landi verið landað í Hvalfirði, en Hvalur hf. er eina útgerðin sem er á hvalveiðum.
Vel á annað hundrað störf skapast í kringum hvalveiðarnar en engar veiðar voru stundaðar árin 2018 til 2021. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir að í ár megi veiða 161 langreyði á veiðisvæðinu Austur-Grænland/Vestur-Ísland og 48 langreyðar á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar, alls 209 hvali. Við þetta bætast heimildir fyrir 42 hvali frá síðasta ári.