Fimmta tilraun til að koma á alþjóðlegum samningi til verndar lífríkis í úthafi hófst í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í gær og munu fundir standa til 26. ágúst. Reynt hefur verið frá árinu 2015 að koma á slíku samkomulagi en aldrei tekist.
AFP hefur eftir Julien Rochette, rannsakanda hjá franskri hugveitu er gengur undir heitinu stofnun sjálfbærnis og alþjóðasamskipta (IDDRI) sem fjármagnað er af franska ríkinu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að helsta andstaða við samninginn kæmi frá Rússlandi og ríkjum sem eiga sérstaka fiskveiðihagsmuni eins og Ísland og Japan. Fullyrðir Rochette að helstu stuðningsaðilar samningsins séu Evrópusambandið, Ástralía, Nýja Sjáland og þróunarríki.
Íslensk yfirvöld hafa í fyrri tilraunum til samninga, eins og Morgunblaðið fjallaði um árið 2018, lagst gegn því að komið verði á alþjóðlegu samkomulagi um verndun líffræðilegs fjölbreytileika í úthafinu, heldur hvatt til þess. Lögðu íslensk stjórnvöld þá áherslu á að komið verði á svæðisbundnu skipulagi í stað nýs hnattræns fyrirkomulag undir nýrri alþjóðastofnun.
Rochette segir samninginn mikilvægan þar sem „hann mun skapa ramma – áttavita – fyrir meginreglur og reglur sem leiðbeina öllu alþjóðasamfélaginu við stjórn þessa sameiginlega rýmis.“
Vilja verndarsvæði
Fjöldi hagsmunasamtaka og fjöldi ríkja telja samninginn nauðsynlegan til að geta verndað þessi gríðarstóru hafsvæði sem er um helmingur af yfirborði jarðar og um 90% af vatnsmassa hafanna. Ekki síst koma á laggirnar regluverk um stjórn nýtinga auðlinda hafs sem eru utan núgildandi alþjóðasamninga.
James Hanson, hjá Greenpeace, segir í samtali við AFP mikilvægt að fyrirhugað þing hagmunaríkja (e. Conference of Parties) sem mun vera falið ákvarðanafvald fái rétt til að skapa verndarsvæði án þess að þurfa að leita til annarra stofnana. Slíkt getur þó verið flókið í framkvæmd þar sem umrædd þing geta þá farið á svig við aðra alþjóðlega samninga og skuldbindingar.