Noregur hefur gengið frá tvíhliðasamningi við Bretland um gagnkvæman aðgang að fiskimiðum í efnahagslögsögum ríkjanna tveggja auk skipta á aflaheimildum. Fiskveiðisamningurinn gildir fyrir veiðar ríkjanna í Norðursjó.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef norska stjórnarráðsins.
Þar segir að samningurinn é framlenging á gildandi samningi og mun sá nýi gilda fyrir árið 2023 og í því felst að fiskiskip ríkjanna geta veitt allt að 30 þúsund tonn af botnfiski í lögsögu hvors annars í Norðursjó. Þá var jafnframt samþykkt að norsk fiskiskip fá að veiða allt að 20 þúsund tonn af síld úr Norðursjó í breskri lögsögu og að bresk skip fá að gera hið sama í norskri lögsögu.
„Ég er mjög ánægður með að samningurinn við Bretland liggur fyrir, hann gefur norskum sjómönnum fyrirsjáanleika. Góður gangur var í viðræðum og hafa þær verið skilvirkar, sem sýnir hve náið og gott samband við eigum við Bretland,“ segir Bjørnar Skjæran, sjávarútvegsráðherra Noregs, í tilkynningunni.