Stjórn Faxaflóahafna hefur ákveðið að ráða Gunnar Tryggvason, sviðsstjóra viðskiptasviðs Faxaflóahafna, í stöðu hafnarstjóra. Hann tekur því við starfinu af Magnúsi Þór Ásmundssyni sem lét af störfum síðastliðið vor.
Í tilkynningu á vef Faxaflóahafna kemur fram að stjórn félagsins hafi samþykkt ráðninguna á fundi sínum á föstudag og að ákvörðunin hafi byggt á „tillögu ráðgefandi hæfnisnefndar sem mælti einróma með ráðningu Gunnars í stöðuna.“ Þar er jafnframt sagt frá því að Gunnar hafi verið starfandi hafnarstjóri frá maí síðastliðnum.
Alls voru sjö umsækjendur um starfið að þessu sinni, en 26 vildu starfið þegar það var auglýst 2020.
Umsækjendurnir sjö voru:
Magnús Þór gegndi starfinu í tvö ár en baðst lausnar frá starfinu eftir að hafa fengið stöðu forstjóra RARIK ohf. frá fyrsta maí síðastliðnum.
Forveri Magnúsar Þórs, Gísli Gíslason, gegndi starfi hafnarstjóra í um 15 ár, en hann tilkynnti í febrúarlok 2020 að hann hefði sagt starfi sínu lausu. „Ég verð 65 ára gamall á árinu og því góður tími til að taka lokasprettinn á vinnumarkaðnum,“ sagði Gísli við tilefnið í viðtali í Morgunblaðinu.
Þann 3. apríl 2020 var tilkynnt að stjórn Faxaflóahafna hefði auglýst starfið laust til umsóknar og var umsóknarfrestur til 29. apríl. Skömmu eftir að umsóknarfrestur rann út, nánar til tekið 4. maí, var tilkynnt að alls hefðu 26 sótt um starfið.