„Það er of hátt hlutfall af íslenskri sumargotssíld í afla skipanna sem eru að veiða á svæðinu,“ segir Sævar Guðmundsson deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu um skyndilokun og bann á veiðum með flotvörpu á svæði sem er oft kallað Rauða torgið.
Afmarkast það af hnitunum:
1. 65°42,00´N, 11°37,00´V
2. 65°42,00´N, 09°00,00´V
3. 65°10,00´N, 09°00,00´V og
4. 65°10,00´N, 11°37,00´V.
Skyndilokunin gengur í garð 29. nóvember kl.18 og gildir til 13. desember kl.18.
„Það eru Færeyingar að veiða þarna og eru að einbeita sér að norsk-íslensku síldinni en við höfum greiningar frá íslensku skipi sem sýna að það sé talsvert hlutfall af Íslandssíld í aflanum. Færeyingar hafa ekki heimildir til að veiða Íslandssíld í okkar lögsögu,“ segir Sævar.
Tekur hann fram að þetta sé varúðarráðstöfun að loka svæðinu á meðan Fiskistofa aflar meiri upplýsinga um samsetningu síldarinnar á svæðinu.
„Þetta er til að tryggja að ekki verði umframveiði á Íslandssíld miðað við veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar,” bætir hann við.
„Vilhelm Þorsteinsson EA var að veiðum þarna, og byggt á greiningum þeirra töldum við ekki annað fært en að loka svæðinu.“
Meira virðist vera af Íslandssíld á Austurmiðum þetta haustið heldur en undanfarin ár.
Sævar segir málið í rauninni flókið en á sama tíma einfalt.
„Færeyingar hafa leyfi til að veiða norsk-íslenska síld en ekki íslensku sumargotssíldina, þetta eru tveir aðskildir stofnar og kvótar.“