Óhætt er að segja að tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða nýjan auðlindaskatt, svokallaða grunnleigu, á sjókvíaeldi hafi fallið í grýttan jarðveg í samfélögunum meðfram strandlengju landsins. Hundruðir mótmæltu umfangsmiklum skattahækkunum á fiskeldi fyrir utan norska Stórþingið í Osló í síðustu viku.
Skattahækkunin, sem lögð er til, hefur haft ýmsar hliðarverkanir sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir við mótun tillögunnar.
Fyrirtæki hafa sett fjárfestingar fyrir 24 milljarða norskra króna á ís og sagt upp yfir þúsund starfsmanna sem sögð er „óumflýjanleg afleiðing óreiðuástandsins sem ríkisstjórnin hefur valdið“. Auk þess hefur norska ríkisstjórnin þurft að minnka gjaldstofn auðlegðarskatts sem og bæta upp hundruða milljóna tap norska fiskeldissjóðsins, Havbruksfondet.
Fjallað er ítarlega um málið í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.