Vilhelm Þorsteinsson EA mun fara í slipp á Akureyri á næstu dögum en skemmdir urðu á skipinu eftir að það strandaði um klukkan eitt síðdegis á mánudag síðastliðinn. Var skipið á leið til hafnar í Neskaupstað með 900 tonn af síld.
Snemma í morgun lagði Barði NK af stað með Vilhelm Þorsteinsson í togi til Akureyrar og segir Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða, í færslu á vef Síldarvinnslunnar að gert sé ráð fyrir um 30 klukkustunda siglingu. „Við förum varla meira en 6 – 7 mílur á klukkustund og ávallt verður að gæta þess að vírinn á milli skipanna sé í sjó því þá er minna átak. Það þarf að fara gætilega, ekki síst ef eitthvað er að veðri. Annars er veðurútlitið ágætt.“
Þá er haft eftir Guðmundi Þ. Jónssyni, skipstjóri Vilhelms Þorsteinssonar, skemmdirnar á skipinu hafi verið smávægilegar og þá aðallega á stýrinu. Upplýsir Guðmundur að líklegast hafi skiptiteinn farið í sundur, en kanna þarf nákvæmlega hvað gerðist og til þess þarf líklega öxuldrátt.
Það var bilun í skrúfubúnaði skipsins sem orsakaði strand skipsins skammt frá höfninni í Neskaupstað, en bilunin varð til þess að skipið tók að sigla stjórnlaust aftur á bak og varð síðan vélarvana. Rak þá skipið upp að bröttum sandkanti sem er rétt sunnan við hafnarmynnið. Barði NK skip kom strax til aðstoðar og dró Vilhelm Þorsteinsson að bryggju.
„Við vorum í reynd heppnir að þetta skyldi gerast þarna. Ef þetta hefði til dæmis gerst inni í höfninni hefði skipið líklega annað hvort lent á stálkanti eða grjótgarði en ekki á mjúkum sandinum,“ segir Guðmundur um slysið í færslunni á vef Síldarvinnslunnar.