Leit að manninum sem féll útbyrðis við Garðskaga laust fyrir klukkan fimm í dag hefur ekki enn borið árangur. Fimmtán skip og bátar ásamt tveimur þyrlum taka þátt í leitaraðgerðum á svæðinu.
Þetta staðfestir Guðmundur Birkir Agnarsson, aðgerðarstjóri hjá Landhelgisgæslunni, í samtali við mbl.is í kvöld.
Fiskiskipið var á veiðum utarlega í Faxaflóa er skipverjinn féll fyrir borð.
Leitin hefur nú staðið yfir í um fjórar klukkustundir en Guðmundur segir að leit muni halda áfram þar til ákvörðun sé tekin um annað.
„Það eru tvær þyrlur sem hafa verið við leit, fimmtán skip og bátar, þar af eitt varðskip og svo fiskiskip og björgunarbátar frá slysavarnarfélaginu.“
Aðstæður eru að sögn Guðmundar með ágætum þrátt fyrir náttmyrkur. Hæglætisveður er á svæðinu og tiltölulega gott til sjós.