Öll tiltæk fiskiskip og bátar á svæðinu þar sem skipverji féll útbyrðis klukkan fimm síðdegis í dag taka nú þátt í leitinni. Skipstjórnarmenn sem 200 mílur hafa rætt við segjast ekkert geta upplýst um gang mála á þessu stigi.
Meðal annars eru fiskiskipin Kap, Sighvatur, Daðey, Hópsnes, Gísli 1909 og Jón Ásbjörnsson á svæðinu.
Guðmundur Birkir Agnarsson, aðgerðarstjóri hjá Landhelgisgæslunni, sagði fyrr í kvöld að leit hafi enn ekki borið árangur.
Umfang aðgerða er töluvert og eru að minnsta kosti átta fiskiskip eða bátar á svæðinu norðvestanvert af Garðsskaga sem og fjórir björgunarbátar og varðskipið Þór.
Þá hafa tvær þyrlur á vegum Landhelgisgæslunnar einnig tekið þátt í aðgerðum.