Leit að skipverja sem féll útbyrðis síðdegis í gær hefur ekki borið árangur en leitinni var frestað á tíunda tímanum í kvöld. Varðskipið Þór verður á svæðinu í nótt og mun áhöfn þess hefja leit aftur í birtingu.
Í færslu Landhelgisgæslunnar á Facebook segir að leit hefur staðið yfir frá klukkan tíu í morgun en þá tóku alls átta skip þátt í aðgerðum, varðskipið Þór, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar auk annarra skipa og báta.
Fimm skip bættust við leitina eftir hádegi sem og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.
„Skilyrði til leitar voru ágæt í dag en leitað var á stóru svæði um 25 sjómílur norðvestur af Garðskaga,“ segir í færslunni.