Sumir hafa lokið síldarveiðinni í bili en það er ekki tilfellið hjá áhöfninni á Hoffellinu. Uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar kom til Fáskrúðsfjarðar síðastliðinn sunnudag með 900 tonna afla og var það annar síldartúr skipsins.
„Við fengum þessa síld út af Faxaflóa og það tók aðeins tvö hol að ná þessum 900 tonnum,“ segir Sigurður Bjarnason, skipstjóri á Hoffelli, í færslu á vef útgerðarinnar. Þar kemur jafnframt fram að veður hafi verið með ágætum þrátt fyrir einn bræludag sem áhöfnin beið af sér í vari.
Skipstjórinn segir fiskinn hafa verið fallegur en þó í minni kantinum, nokkuð hann telur vera vísbendingu um góða nýliðun í síldarstofninum.
Skipið er nú statt suður af landinu, rétt út af Alviðruhömrum, á leið sinni vestur á síldarmiðin. Sigurður segir það geta verið áskorun að ná síldinni. „Síldin fer sínar leiðir, ef torfa finnst þá getur hún horfið á tveimur tímum ef því er að skipta.“