Ekki er vitað til þess að staðan hvað varðar brot gegn réttindum starfsfólks sé betri eða verri í fiskvinnslu en í öðrum atvinnugreinum. Ástæðan er að stéttarfélögin hafa ekki heimild til þess að sinna eftirliti á vinnustöðum fiskvinnslufólki.
Þetta segir Saga Kjartansdóttir hjá Alþýðusambandi Íslands, í Morgunblaðinu í dag.
Stór hluti þeirra sem starfa í fiskvinnslu hér á landi er með erlendan bakgrunn og segir Saga að fólk af erlendu bergi brotið sé mun útsettara fyrir kjarasamningsbrotum og svindli, til að mynda með tilliti til launaþjófnaðar eða mansals. Einmitt vegna þessarar staðreyndar sé sérstaklega mikilvægt að stéttarfélögum verði veitt tækifæri til að viðhafa öflugt eftirlit.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur jafnframt fram að vinnueftirlit stéttarfélaganna nái heldur ekki til fiskeldis.