Nýverið undirritaði Menntaskólinn á Ísafirði undir samstarfssamning við þrjú fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum, Arctic Fish, Arnarlax og Háafell, um framhaldsskólanám í fiskeldi í samstarfi við Vestfjarðastofu.
Fiskeldisfyrirtækin hafa lagt til stofnframlag og hefst kennsla haustið 2023, en mikill skortur hefur verið á menntuðu starfsfólki vegna þess öra vaxtar sem hefur átt sér stað í fiskeldinu í landshlutanum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Vestfjarðarstofu.
Gert er ráð fyrir að námið verði sjálfbært hvað varðar rekstrarfé og fer verkleg kennsla og kynningar á starfsvettvangi í samstarfi við fyrirtækin.
Í fleiri skólum
„Ný námsbraut sem verður leidd af Menntaskólanum á Ísafirði ber yfirskriftina „hafið, umhverfið og auðlindir.“ Brautin samanstendur af stúdentsbraut með staðgóða þekkingu á umhverfinu, auðlindum hafsins og fiskeldi og innan brautarinnar er eins árs nám sem kennir grunnþætti til starfa í fiskeldi,“ segir í tilkynningunni.
Brautin verður þó ekki aðeins kennd á Ísafirði og mun Fjölbrautaskólinn á Snæfellsnesi, Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki og Verkmenntaskóli Austurlands bjóða nemendum að stunda námið. Gert er ráð fyrir að skólarnir samnýti þekkingu en verklegt nám fer fram á hverjum stað fyrir sig. Með þessari aðferð er vonast til að sérfræðiþekking byggist upp í landsfjórðungunum sem styrki einnig fullorðinsfræðslu fræðslumiðstöðva landsins í tengslum við fiskeldi.
Námsbrautin er sögð afrakstur greiningarvinnu Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á menntunarþörf í fiskeldi í Evrópuverkefninu Blue Mentor.
Uppbygging í nærumhverfi
„Skólinn fagnar samstarfi við fiskeldisfyrirtækin í nærumhverfinu sem er mikilvægt í ljósi framþróunar í fiskeldi,“ segir Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari í MÍ.
„Fiskeldi byggir á þekkingu og er þetta mikilvægur liður í því að mennta hæft starfsfólk. Það er sérstaklega ánægjulegt að það sé hér á svæðinu, en við hjá Háafelli leggjum mikið upp úr að innviðir og þjónusta byggist upp í nærumhverfi greinarinnar,” segir Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells.