Á fyrstu tveimur vikum ársins, 1. janúar til 15. janúar, lönduðu 74 krókaaflamarksbátar og 76 aflamarksskip þorski – alls rúm 7.125 tonn. Þar af lönduðu aflamarksskipin 5.290 tonnum og krókaaflamarksbátarnir tæplega 1.835 tonnum.
Samkvæmt löndunartölum Fiskistofu fyrir tímabilið landaði Akurey AK-10 mestum þorski eða rétt rúmlega 251 tonni. Næst á eftir er Málmey SK-1 með tæp 244 tonn, svo Páll Pálsson ÍS-102 með 220 tonn, Viðey RE-50 með 212 tonn og skipið með fimmta mesta þorskaflan var Drangey SK-2 með 203 tonn.
Meðalafli aflamarksskipanna fyrstu tvær vikur ársins nam rúmlega 69 tonnum af þorski.
Þegar litið er til þeirra báta sem veiða innan krókaaflamarkskerfisins var Sunnutindur SU-95 aflamestur í þorski tímabilið 1. til 15. janúar og landaði alls 105 tonnum.
Næst kemur Gullhólmi SH-201 með rúm 79 tonn, svo Sandfell SU-75 með rúmlega 74 tonn og Hafrafell SU- 65 með tæplega 74 tonn. Fimmta mesta þorskinn bar Stakkhamar SH-220 að landi, alls rúm 73 tonn.
Meðalafli krókaaflamarksbátanna sem lönduðu þorski á tímabilinu nemur 24,8 tonnum.