Töluverður hafís hefur safnast frá Þverálshorni og Halanum suður á Barðagrunni við Vestfjarðamið og hamlar veiði á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Brim.
Í tilkynningunni er haft eftir Heimi Guðbjörnssyni, skipstjóra á ísfiskitogaranum Helgu Maríu AK, að hafísinn nái upp að 12 mílum frá landi. Þó að ísinn sé að mestu þunnur lagnaðarís eru ísspangirnar á milli þykkar sem kemur í veg fyrir togveiðar.
„Þegar hafísinn kom sáum við okkar óvænna og færðum okkur sunnar. Við vorum á Kögurgrunni þar sem var ýsuafli. En ýsan í aflanum jókst jafnt og þétt og við urðum því að færa okkur,“ er haft eftir Heimi í tilkynningu Brims.