Biðjast afsökunar á rangfærslum um Samherjamálið

Fjallað var um spillingu á Íslandi í febrúarútgáfu Aftenposten Innsikt. …
Fjallað var um spillingu á Íslandi í febrúarútgáfu Aftenposten Innsikt. Ritstjórnin hefur nú beðist afsökunar á fjölda rangfærslna og óvæginnar umfjöllunar. Samsett mynd

„Aftenposten Innsikt biðst afsökunar.“ Þannig endar 647 orða afsökunarbeiðni í marsútgáfu fréttatímaritsins Aftenposten Innsikt vegna átta blaðsíðna umfjöllunar um spillingu á Íslandi. „Í greininni var framsetning málsins sem fjallað var um óvægin, í hana vantaði viðbrögð þess ásakaða og í henni voru fleiri rangfærslur.“

Í febrúar prýddi umfjöllunin forsíðu tímaristins, sem kemur út mánaðarlega, og var meðal annars fjallað um Namibíumálið og sjávarútvegsfyrirtækið Samherja. Undir fyrirsögninni „Spilltasta land Norðurlanda“ var ritað: „Á meðan hin Norðurlöndin stæra sig af því að vera löndin með minnsta spillingu, hefur Ísland hrunið af toppi listans eftir mörg ár af eftirtektarverðum hneykslismálum. Sérstaklega er íslenskur sjávarútvegur kveikjan að spillingunni, á sama tíma líta stjórnmálamenn í aðra átt og íbúar yppa öxlum.“

Nú biðst tímaritið „velvirðingar á mistökum og viðbragðsleysi í febrúarútgáfunni“, en umfjöllunin, sem sjálfstætt starfandi blaðamaðurinn Lasse Skytt ritaði, byggði aðallega á viðtali við Jóhannes Stefánsson fyrrverandi starfsmann Samherja í Afríku. Meðal annars var einnig rætt við Atla Þór Fanndal framkvæmdastjóra Transparency International á Íslandi, Þórð Snæ Júlíusson annan tveggja ritstjóra Heimildarinnar og Sigríði Dögg Auðunsdóttur formann Blaðamannafélags Íslands.

Umfjöllunin taldi alls átta síður.
Umfjöllunin taldi alls átta síður. Skjáskot/Aftenposten Innsikt

Ekki innistæða fyrir fullyrðingum

Ritstjórnin kveðst hafa brugðist og ekki tryggt að farið væri eftir „venjum um góða starfshætti“ við birtingu greinarinnar. Þetta hafi meðal annars „leitt til þess að Samherja var ekki gefinn kostur á að tjá sig um þau atriði sem sneru að þeim beint, eins og grundvallarvenjur blaðamanna segja til um. Ekki var greint frá árangurslausri tilraun ritstjórnar að ná í Samherja með tölvupósti. Tvær fyrirspurnir reyndust berast á netfang sem ekki var til hjá Samherja. […] Vísað var í staðinn í yfirlýsingar félagsins sjálfs um málið en ekki er ásættanlegt að það komi í stað viðbragða.“

Einnig er beðist velvirðingar á framsetningu fjölda staðhæfinga í umfjölluninni. Ekki hafi verið „nægilega skýrt að þetta væri útgáfa umrædds uppljóstrara Jóhannesar Stefánssonar af málinu. Ekki kom heldur fram að rannsókn málsins væri yfirstandandi á Íslandi og að niðurstaða liggi ekki fyrir fyrr en hún verði tekin til úrskurðar með lagalega bindandi dómi eða rannsókn verði hætt. Örfáir einstaklingar hafa stöðu grunaðs en engin ákæra hefur verið gefin út á hendur neinum á Íslandi. Engir einstaklingar eða fyrirtæki sem tengjast Samherja eru hluti af nefndu sakamáli í Namibíu.“

Jóhannes Stefánsson greindi frá því hvernig hann hafði borði fé …
Jóhannes Stefánsson greindi frá því hvernig hann hafði borði fé að embættismönnum í Namibíu og sagði það gert í samrái við stjórnendur Samherja. Skjáskot/Kveikur

Kveðst Aftenposten Innsikt ekki hafa innistæðu til að fullyrða að Jóhannes hafi aðhafst „á vegum“ Samherja í tengslum við mútugreiðslur til einstaklinga í Namibíu og ekki heldur að það hafi verið gerður samningur um slíkar greiðslur milli Samherja og namibískra aðila. „Þessar staðhæfingar eru [Jóhannesar] Stefánssonar og hvort hann gerði þetta á vegum félagsins er alfarið hafnað af Samherja og er hluti af rannsókninni sem nú fer fram. Þetta hefði átt að koma fram í greininni.“

Ekki var heldur innistæða fyrir að vísa til „mútugreiðslusamnings“ í greininni og segir Aftenposten Innsikt að lögmannsstofa Samherja í Noregi, Wikborg Rein, hafi vakið athygli ritstjórnar á að „í skoðun sinni á málinu hafa ekki fundist nein gögn sem falla undir þetta. Ákæruvaldið sem rannsakar málið á Íslandi hefur hingað til ekki fundið neinn „mútusamning“.“

Telja ónákvæmni í umfjölluninni

Gefið var til kynna í umfjölluninni að þekkt væri að rekstur Samherja í Namibíu hafi skilað „miklum hagnaði“. „Þetta er ekki skjalfest og stendur án staðfestingar.“

Jafnframt var fullyrt að Samherji færi beint með 24,3% af útgefnum veiðiheimildum á Íslandsmiðum þrátt fyrir að hérlend lög aðeins heimiluðu 12% hámarkshlutdeild. Aftenposten Innsikt segir upplýsingar Fiskistofu gefa til kynna að Samherji Ísland ehf. sé aðeins skráð fyrir 8,78% af aflaheimildunum. „Talan 24,3 var framsett með villandi hætti og byggði á útreikningum þar sem einnig var tekið tillit til eignarhluta, stjórnarsetu og þessháttar í öðrum félögum.“

Þá segir ritstjórn tímaritsins að yfirheyrsla íslenskra blaðamanna hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra hafi „ekki tengst umfjöllun þessara blaðamanna um umrætt mál og kemur þannig málinu ekki við“. Er þar vísað til máls sem er til rannsóknar vegna kæru Páls Steingrímssonar skipstjóra í tengslum við símastuld og brot gegn friðhelgi einkalífs.

Fleiri ágallar

Auk ofannefndra annmarka er einnig tekið fram að Jóhannes hafi ekki komið upplýsingum til Wikileaks á meðan hann starfaði hjá Samherja, heldur þremur áður síðar.

Þá hafi verið ranglega haldið fram í greininni að norska fjármálaeftirlitið hafi krafist gjalds af norska DNB bankanum 2021 vegna skorts á vandvirkni í að tryggja framkvæmd laga um peningaþvætti í tengslum við viðskipti bankans og Samherja. Hið rétta er að viðskiptin við Samherja hafi ekki haft áhrif á þá ákvörðun eins og fram kemur í tilkynningu norska fjármálaeftirlitsins (Finanstilsynet). Stofnun hafi þó gert sérstaka úttekt í tengslum við mál Samherja, en þau viðskipti sem skoðuð voru áttu sér stað þegar önnur lög voru í gildi og málið einnig fyrnt.

„Einnig þegar minnst var á greiðslu frá DNB reikningum var hugtakið „mútupeningar“ notað án þess að slíkt væri staðfest af dómstólum, en er í rannsókn. Á sama tíma fullyrðir Samherji í gegnum lögmann sinn að hlutfall fjárhæðanna sem greiddar voru í gegnum DNB sem fjallað er um sem vafasamar sé mun lægra en það sem er afritað í greininni og í öðrum fjölmiðlum.“

„Aftenposten Innsikt biðst afsökunar. Svör Samherja við greininni verða birt í síðari útgáfu Aftenposten Innsikt,“ segir að lokum í afsökunarbeiðninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðrún Petrína HU 107 Grásleppunet
Grásleppa 1.141 kg
Þorskur 83 kg
Samtals 1.224 kg
19.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 343 kg
Ýsa 113 kg
Karfi 7 kg
Samtals 463 kg
19.4.24 Sunna Líf GK 61 Grásleppunet
Grásleppa 345 kg
Samtals 345 kg
19.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 769 kg
Ýsa 14 kg
Skarkoli 2 kg
Samtals 785 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðrún Petrína HU 107 Grásleppunet
Grásleppa 1.141 kg
Þorskur 83 kg
Samtals 1.224 kg
19.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 343 kg
Ýsa 113 kg
Karfi 7 kg
Samtals 463 kg
19.4.24 Sunna Líf GK 61 Grásleppunet
Grásleppa 345 kg
Samtals 345 kg
19.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 769 kg
Ýsa 14 kg
Skarkoli 2 kg
Samtals 785 kg

Skoða allar landanir »