Norska ríkisstjórnin hefur fallist á að lækka tillögu sína um nýjan auðlindaskatt á sjókvíaeldi, svokallaða grunnleigu, í 25%. Samkomulag þess efnis náðist við tvo flokka á norska Stórþinginu fyrir helgi og hefur gengi hlutabréfa fiskeldisfyrirtækja í norsku kauphöllinni hækkað þó nokkuð í kjölfarið.
Upphafleg tillaga um 40% grunnleigu var kynnt í september á síðasta ári en hún mætti mikilli andstöðu fyrirtækja, íbúa við strandlengju Noregs og stjórnmálamönnum, þar með talið fjölda stjórnmálamanna innan norska miðflokksins (Senterpartiet) sem er í ríkisstjórnarsamstarfi við verkamannaflokkinn (Arbeiderpartiet).
Ríkisstjórnin, sem er ekki með meirihluta á bak við sig á norska þinginu, féllst á að lækka fyrirhugaða grunnleigu niður í 35% og kynnti tillögu þess efnis í mars. Ekki var þó mikill stuðningur við þá tillögu.
Samningur náðist á fimmtudag í síðustu viku milli ríkisstjórnarflokkanna og frjálslyndaflokksins (Venstre) og flokk sjúklinga (Pasientfokus) um að grunnlaigan yrði sem fyrr segir 25%, að því er fram kemur í umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK.
Jaðarskattur sjókvíaeldis (grunnleiga og tekjuskattur lögaðila) verður því 47% og hefur afturvirk áhrif.
Samningunum fylgir einnig ákvæði um að sveitarfélög og fylki fái stærri hlut í tekjum af gjaldinu sem og hækkun afsláttar af grundvelli auðlegðarskatts úr 50% í 75%.
Fyrr í maí var samningaviðræðum milli ríkisstjórnarinnar og hægriflokksins (Høyre), frjálslyndaflokksins og kristilega þjóðarflokksins (Kristelig Folkeparti) slitið eftir 24 klukkustunda lotu enda hyggðist ríkisstjórnin ekki fara neðar en 30%. Hafði hægriflokkurinn sagst reiðubúinn til að fallast á 15% grunnleigu þrátt fyrir að vera mótfallin umræddri gjaldtöku.
Sama dag og tilkynnt var um samninganna tók gengi hlutabréfa fiskeldisfyrirtækja í Noregi að hækka og jókst verðmæti skráðra fiskeldisfyrirtækja um 19 milljarða norskra króna, jafnvirði tæplega 240 milljarða íslenskra króna, að því er fram kom í umfjöllun Dagens Næringsliv. Sjávarfangsvísitala norsku kauphallarinnar hefur þó lækkað eitthvað síðan þá.
Hækkanirnar eru kærkomnar fyrir fjárfesta sem sáu miklar lækkanir þegar upphafleg tillaga um 40% grunnleigu var kynnt. Við það minnkaði verðmæti fyrirtækjanna um 45 milljarða norskra króna. Umrædd tillaga hefði gert jaðarskatt fyrirtækja sem stunda sjókvíaeldi 68% en með því er átt við grunnleigu auk tekjuskatt lögaðial. Viðbrögð fjölda fyrirtækja var að setja á ís fjárfestingarverkefni eða jafnvel hætta við þau. Einnig var gripið til uppsagna.
Geir Ove Ystmark, framkvæmdastjóri samtaka framleiðenda sjávarafurða (Sjømat Norge), segir í yfirlýsingu á vef samtakanna að það sé vissulega betra að skattaaukningin verði minni en upphaflega var lagt upp með, en það breyti því ekki að áhrif aukinnar skattlagningar mun hafa áhrif á rekstrarskilyrði fyrirtækja.
„Við höfum frá upphafi bent á að það eru miklir veikleikar í þessu skattastrúktúr. Það breytist ekki með þessu samkomulagi. Kerfið er skrifræðislegt, krefjandi fyrir fyrirtækin í umsýslu og er um að ræða afturvirkan skatt,“ segri Ystmark.