Ekki farið varhluta af breytingum í sjávarútvegi

Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna.
Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna. mbl.is/Eyþór Árnason

„Sjómannadagurinn hefur ekki farið varhluta af þessum breytingum í sjávarútvegi. Þeim stöðum þar sem hann er haldinn hátíðlegur hefur fækkað, minni staðir hafa sameinast um að halda daginn hátíðlegan og þá í mörgum tilfellum með miklum glæsibrag,“ skrifar Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, í pistli í sjómannadagsblaði 200 mílna sem fylgdi Morgunblaðinu í gær.

Pistill Árna í heild:

Mig langar í tilefni sjómannadagsins að rifja upp tilurð þessarar merku hátíðar og minna á nauðsyn þess að hún haldi velli um ókomin ár.

Sjómannadagsráð var stofnað af sjómannafélögum í Reykjavík og Hafnarfirði 25. nóvember 1937. Fyrir þann tíma höfðu sjómenn um árabil rætt nauðsyn þess að halda hátíðisdag sjómanna. Í fyrstu var tilgangurinn að standa fyrir árlegum sjómannadegi. En mikill stuðningur almennings strax í upphafi leiddi til þeirrar ákvörðunar árið 1939 að ákveðið var að byggja dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn (DAS), sem er stórmerkileg saga sem ekki verður rakin hér að þessu sinni.

Sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur þann 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði. Í skrúðgöngunni í Reykjavík voru í forystu fulltrúar Skipstjórafélagsins Öldunnar. Þar gat að líta margan aldraðan sjómann, á eftir fylgdu fulltrúar annarra stéttarfélaga sjómanna. Gengið var frá Stýrimannaskólanum við Öldugötu að Leifsstyttu á Skólavörðuholti. Fulltrúar stéttarfélaga sjómanna báru félagsfána félaga sinna. Merkisberar félaganna tóku sér stöðu sitt hvorum megin við styttuna og sagði í Morgunblaðinu að úr hefði orðið mikil fánafylking svo glampaði á fánana í sólskininu hátt yfir mannfjöldann. Hátíðahöldin hófust á að mannfjöldinn minntist látinna sjómanna með einnar mínútu þögn.

Skúli Guðmundsson atvinnumálaráðherra skýrði frá því að blómsveigur yrði lagður við leiði óþekkts sjómanns í Fossvogskirkjugarði. Leiðið kom til nokkru eftir að „Skúli fógeti“ fórst 10. apríl 1933 og rak í kjölfarið lík sem ekki þekktist. Í líkræðu séra Árna Sigurðssonar kemur fyrst fram hugmyndin um að heiðra minningu látinna sjómanna í líkingu við það sem aðrar þjóðir gera með því að heiðra minningu „óþekkta hermannsins“. Allar götur síðan hefur þessi fallegi siður haldist í Reykjavík og víðar um land.

Á eftir Skúla steig í ræðustól Ólafur Thors forstjóri Kveldúlfs og afhenti forstöðumönnum sjómannadagsins verðlaunagrip að gjöf frá Félagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda, sem notaður skyldi í samkeppni innan sjómannastéttarinnar og að forstöðunefnd sjómannadagsins hefði ákveðið að nota verðlaunagripinn í verðlaun fyrir björgunarsund. Ólafur sagði að sjómaðurinn berðist ekki eingöngu fyrir sinni eigin afkomu, heldur legði hann grundvöllinn að afkomu mjög margra annarra. „Fyrir þrennt hafa sjómenn vorir öðlast viðurkenningu og vináttu alþjóðar, vegna nauðsynjar þjóðarinnar á starfinu, vegna áhættu starfsins og fyrir hinn frábæra dugnað“.

Hátíðahöld við Reykjavíkurhöfn

Í framhaldi af hátíðahöldunum hélt mannfjöldinn niður að Reykjavíkurhöfn þar sem sjómenn kepptu í „Stakkasundi“ sem var 100 metra kappsund þar sem sjómenn voru í öllum sínum venjulegu vinnufötum, það voru upphá gúmmistígvél ­(bússur) og olíuborinn stakkur. Þá var keppt í kappróðri þar sem áhafnir ellefu skipa tóku þátt, sex ræðarar á hverjum björgunarbát réru u.þ.b. 750 metra. Verðlaunagripurinn var farandgripur sem var rismynd sem Ásmundur Sveinsson gerði fyrir þetta tilefndi. Seinast var keppt í knattspyrnu og reipdrætti (reiptogi) á íþróttavellinum.

Sjómenn kepptu við Hauka úr Hafnarfirði og unnu sjómennirnir með tveimur mörkum gegn einu. Í hálfleik var keppt í reiptogi á milli reykvískra og hafnfirskra sjómanna. Keppt var í tveimur átta manna sveitum og unnu Reykvíkingar. Síðasti þáttur sjómannahátíðarinnar var veisla að Hótel Borg, þar sem ungur sjómaður var sæmdur heiðurspeningi sjómannadagsins fyrir að taka þátt í öllum íþróttum er þreyttar voru.

Sjómannadagurinn frá 1938

Frá árinu 1938 voru stofnuð sjómannadagsráð í sjávarbyggðum víðast um landið, með það að markmiði að halda upp á sjómannadaginn. Árið 1987 var sjómannadagurinn lögskipaður frídagur sjómanna og er hann opinber íslenskur fánadagur. Hátíðahöldin eru víðast með svipuðum hætti. Haldnar eru sérstakar sjómannamessur þar sem áhersla er lögð á starf og líf sjómannsins, lagður er blómsveigur að leiði eða minnisvarða um fallna sjómenn. Skip eru skreytt fánum, skipslúðrar flauta inn hátíðir, sjómenn og fjölskyldur gera sér dagamun, haldnar eru samkomur þar sem ræður eru fluttar, sjómenn eru heiðraðir fyrir störf sín og látinna sjómanna er minnst. Gefin eru út sjómannadagsblöð með viðtölum við sjómenn og þá sem tengjast þeim og greinum um atvik og/eða atburði sem tengjast sjómönnum.

Með tíð og tíma hafa þjóðfélagshættir breyst. Sjávarútvegur var aðalatvinnuvegur þjóðarinnar alla tuttugustu öldina og er enn þó að vægi hans hafi minnkað. Þá er hann víða um land burðarás þorpa og bæja þar sem samfélög standa og falla með honum. Miklar breytingar hafa orðið í sjávarútvegi, sjómönnum hefur fækkað mikið og miklar tæknibreytingar hafa átt sér stað. Skv. Hagstofu Íslands var fjöldi sjómanna um 4.000 árið 2008 en eru innan við 3.000 árið 2022. Á 14 árum hefur sjómönnum fækkað um 1.000, á sama tímabili hefur vélskipum fækkað úr 769 í 685 eða um 84 skip, útflutningsframleiðsla sjávarafurða á verðlagi hvers árs hefur aukist úr 180.679 milljónum í 269.910 milljónir eða um 89.231 milljónir, sem gerir um 49% aukningu. Meðaltekjur sjómanna hafa aukist á tímabilinu frá 690.587 kr. í 1.636.492 kr. sem gerir um 137% aukningu.

Sjómannadagurinn hefur ekki farið varhluta af þessum breytingum í sjávarútvegi. Þeim stöðum þar sem hann er haldinn hátíðlegur hefur fækkað, minni staðir hafa sameinast um að halda daginn hátíðlegan og þá í mörgum tilfellum með miklum glæsibrag.

Í Reykjavík verður sjómannadagurinn árið 2023 haldinn hátíðlegur eins og árið 1938 en með öðrum hætti. Í ár eins og undanfarin ár standa sjómannadagsráð, Faxaflóahafnir og Brim hf. sameiginlega fyrir veglegum hátíðarhöldum við Reykjavíkurhöfn. Hátíðin hefst með fallegri og virðulegri athöfn kl. 10.00 að morgni sjómannadags við Öldurnar (minnismerki um drukknaða sjómenn á Íslandi) í Fossvogskirkjugarði þar sem lagður verður blómsveigur að minnismerkinu. Forseti Íslands mætir, dómsmálaráðherra ásamt dómkirkjupresti og fulltrúum Landhelgisgæslu Íslands auk margra annarra. Það verður sjómannamessa í Dómkirkjunni kl. 11 eins og ávallt þar sem biskup Íslands eða dómkirkjuprestur predika. Þá verða heiðraðir sjómenn í Hörpunni eins og í fyrra, það tókst vel og var falleg og virðuleg athöfn. Dagskrá verður fyrir börn og fullorðna við Reykjavíkurhöfn. Ég hvet fólk til þess að taka þátt í hátíðarhöldum sjómannadagsins.

Að lokum þá minni ég á orð Ólafs Thors frá fyrsta sjómannadeginum árið 1938, þau eru góð og gild: „Fyrir þrennt hafa sjómenn vorir öðlast viðurkenningu og vináttu alþjóðar, vegna nauðsynjar þjóðarinnar á starfinu, vegna áhættu starfsins og fyrir hinn frábæra dugnað“.

Ég óska sjómönnum og landsmönnum öllum innilega til hamingju með sjómannadaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,91 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 192,13 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 120,61 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,35 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Tryllir GK 600 Grásleppunet
Grásleppa 1.264 kg
Þorskur 164 kg
Skarkoli 115 kg
Rauðmagi 20 kg
Samtals 1.563 kg
25.4.24 Loftur HU 717 Handfæri
Þorskur 408 kg
Karfi 74 kg
Ufsi 35 kg
Samtals 517 kg
25.4.24 Von HU 170 Grásleppunet
Grásleppa 1.092 kg
Skarkoli 590 kg
Þorskur 502 kg
Ýsa 97 kg
Steinbítur 6 kg
Sandkoli 3 kg
Samtals 2.290 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,91 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 192,13 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 120,61 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,35 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Tryllir GK 600 Grásleppunet
Grásleppa 1.264 kg
Þorskur 164 kg
Skarkoli 115 kg
Rauðmagi 20 kg
Samtals 1.563 kg
25.4.24 Loftur HU 717 Handfæri
Þorskur 408 kg
Karfi 74 kg
Ufsi 35 kg
Samtals 517 kg
25.4.24 Von HU 170 Grásleppunet
Grásleppa 1.092 kg
Skarkoli 590 kg
Þorskur 502 kg
Ýsa 97 kg
Steinbítur 6 kg
Sandkoli 3 kg
Samtals 2.290 kg

Skoða allar landanir »