Kelfd langreyður var veidd og dregin til hafnar við hvalstöðina í Hvalfirði í morgun. Af myndunum að dæma var stutt í burð hjá kálfinum sem dreginn var úr móðurinni eftir að komið var með langreyðina í land.
Edda Elísabet Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur og lektor í líffræði við Háskóla Íslands, segir aðspurð enga leið til að meta af hvoru kyni langreyður er í sjónum. Þá sé ekki hægt að segja til um það hvort hvalurinn sé þungaður eður ei.
Fimm starfsmenn hjálpast að.
Ljósmynd/Arne Feuerhahn
Ekki mögulegt að greina kyn í sundur
„Það er ekki mögulegt að greina kynin í sundur á þessum hvölum, þó kvendýrin geti orðið stærri. Þær ganga með kálfana sína í 11-12 mánuði þannig að það eru líkur á því þegar kvendýr er veitt á þessum árstíma að einhverjar séu kálfafullar. Þegar komið er að þessum árstíma þá aukast líkur á því að kýrnar séu langt gengnar. Eigi nokkrar vikur eða mánuð eftir. Það er líklegra á þessu tímabili,“ segir Edda í samtali við mbl.is.
Hún segir að af myndunum að dæma sé um að ræða 3,5-4 metra langan kálf og því líkur að um mánuður hafi verið í burð í þessu tilviki. Kálfar eru um 6 metrar að lengd þegar þeir eru fullgengnir og stækka hratt á lokavikum þungunar.
Kálfurinn dreginn.
Ljósmynd/Arne Feuerhahn
Kálfurinn meðhöndlaður í landi.
Ljósmynd/Arne Feuerhahn
Starfsmenn hvalstöðvarinnar gera að hvalnum.
Ljósmynd/Arne Feuerhahn