„Í löngum túrum er lífið skipverjum léttara ef aðbúnaður um borð er góður. Í því sambandi get ég sagt að þetta skip er fyrsta flokks; fer vel með mannskap og tæknin um borð er ef til vill vísbending um hvernig fiskiskip framtíðar verða,“ segir Árni Gunnólfsson, skipstjóri á Þerney RE 1.
Fyrir öllu er séð á Þerney, en togarinn er 81,3 metra langur og 17 metra breiður. Er samkvæmt því stærsta bolfiskskipið í íslenska flotanum. Brim hf. tók togarann í útgerð sína í vor, sem tengist öðrum breytingum á skipastól fyrirtækisins, svo sem því að Örfirisey RE hefur verið seld til Suður-Afríku.
Alls komast um 1.000 vörubretti í lestina á togaranum og oft er talsverður atgangur á Grandagarðinum við lestun og losun.
mbl.is/Sigurður Bogi
Afköstin 150 tonn á sólarhring
Þerneyin er smíðuð 2019 í Armon-skipasmíðastöðinni á Spáni. Upphaflega var farið af stað í smíðina fyrir Brim (þá HB Granda) en grænlenska fyrirtækið Arctic Prime Fisheries gekk inn í málið og tók við skipinu. Tengsl eru milli Brims og grænlenska félagsins og af því var togarinn keyptur fyrr á þessu ári. Skipið var þá tekið í íslenska útgerð. Alls eru 25 manns í áhöfn hverju sinni, mannskapur sem siglir yfirleitt túr á móti túr.
Þerneyin er 4.600 tonna skip, hannað af Rolls Royce í Noregi í samstarfi við Brim. Við hönnun skipsins var orkusparnaður hafður að leiðarljósi, sem og sjálfvirkni. Fullkominn búnaður er til flökunar og frystingar og fiskimjölsverksmiðja er um borð sem fullnýtir allt sem veitt er. Afkastageta fiskvinnsluvélar um borð getur verið 150 tonn á sólarhring.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 29. ágúst.