Sjávarútvegsfyrirtækið Brim tók nýlega upp á því að bjóða starfsmönnum sínum sem eru innflytjendur upp á nýstárlega íslenskukennslu í samstarfi við smáforritið Bara tala.
Starfsmaður Brims segir íslenskunámið auðvelt og skemmtilegt.
Þetta kemur fram í tilkynningu Brims.
Fram kemur að framtakið sé í samræmi við nýjustu ráðleggingar OECD um að bæta tungumálakunnáttu innflytjenda á Íslandi og styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði.
„Brim hefur nýtt Bara tala til að bjóða starfsfólki sveigjanlegt og einstaklingsmiðað íslenskunám. Á fyrsta námskeiðinu, sem stóð yfir í þrjá mánuði, unnu þátttakendur sjálfstætt með forritinu ásamt því að mæta í sex skipti með leiðbeinanda námskeiðsins, Pálma Hafþóri Ingólfssyni,“ segir í tilkynningunni.
Þátttakendur luku 7.267 æfingum og unnu samtals í 187 klukkustundir sem er að meðaltali yfir 18 klukkustundir af íslenskunámi.
Aneta Bluszko, starfsmaður Brims á Vopnafirði, hefur nýtt Bara tala til hins ýtrasta. Hún hefur klárað allt kennsluefni forritsins, sem samsvarar meira en 80 klukkustundum af námi, og í tilkynningunni er eftirfarandi haft eftir henni:
„Bara tala hefur hjálpað mér mikið að læra íslensku. Ég get lært hvenær sem mér hentar og þegar ég hef áhuga. Ég er búin að læra fullt af nýjum orðum en ég veit að ég á ennþá margt eftir að læra. Þetta er skemmtilegt app sem gerir námið auðvelt og skemmtilegt. Ég held að þetta sé besta leiðin til að bæta tungumálakunnáttuna. Mér finnst gaman að spila það og ég mæli hiklaust með því fyrir alla!“
Nú hefur verkefnið einnig verið innleitt fyrir annað starfsfólk Brims í Reykjavík og á Vopnafirði.
Til stendur að bjóða öllu starfsfólki Brims og dótturfélaga af erlendum uppruna sams konar námskeið.
„Bara Tala er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Forritið leggur áherslu á talmál og gefur aðfluttum tækifæri til að læra og æfa sig í framsögn á íslensku. Bara Tala er seld beint til fyrirtækja og stofnana og hefur reynst öflugt tæki til að bæta tungumálakunnáttu innflytjenda,“ segir í tilkynningunni.