Nýr ísfisktogari Þorbjarnar hf. í Grindavík, Hulda Björnsdóttir GK-11, er væntanlegur til hafnar í byrjun næstu viku, segir Gunnar Tómasson framkvæmdastjóri Þorbjarnar í samtali við Morgunblaðið.
Togarinn er 58 metra langur og 13,6 metra breiður, smíðaður hjá Armon í Gijón á Spáni og fær nafn sitt frá Huldu Björnsdóttur, móðir Gunnars, sem stofnaði fyrirtækið ásamt eiginmanni sínum Tómasi Þorvaldssyni. Þorbjörn gerir þegar út togara sem ber nafn hans, Tómas Þorvaldsson GK-10. Mun því brátt sinn togarinn hvor bera nafn þeirra hjóna.
Sérlega sparneytið skip
Gunnar segir að við hönnun skipsins hafi verið lögð rík áhersla á að draga úr orkunotkun.
„Hugmyndin er að vera með 2.380 KW hæggenga aðalvél, öflugan gír og niðurfærslu niður í stóra skrúfu sem er 5 metrar í þvermál. Bæði stærð og snúningshraði skrúfunnar verður minni en áður hefur þekkst í skipum af sambærilegri stærð. Skipið verður því sérlega sparneytið og kemur til með að vera í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki,“ útskýrir Gunnar.
Hann segir aðspurður að skipið verði gert út á ísfiskveiðar og geti þá dregið tvær botnvörpur samtímis.
„Skipið verður á bolfiskveiðum með megináherslu á þorsk. En skipið sjálft er hannað þannig að auðvelt er að breyta því yfir í frystitogara. Skipið verður fyrst og fremst á ferskfiskveiðum,“ segir Gunnar.
Hann segist reikna með að skipið fari í fyrstu veiðiferðina fljótlega eftir komuna til landsins og 14 til 15 manns verða í áhöfn.
Línuútgerðin hættir
Aðspurður segir hann að fyrirtækið ætli alfarið að hætta að gera út línuskip.
„Við erum búnir að fækka línuskipum okkar og í raun og veru er búið að leggja þeim öllum. Þegar mest lét gerðum við út fimm línuskip, á síðasta ári var það komið niður í eitt. Nú er búið að leggja síðasta línuskipinu,“ segir Gunnar að lokum.