Unnið hefur verið hörðum höndum í Slippnum á Akureyri við að gera ýmsar endurbætur og uppfærslur á Harðbak EA-3 auk þess sem togarinn var heilmálaður.
„Þetta hefur allt saman gengið vel og við erum að sjá fyrir endann á verkefninu. Skipið var heilmálað, búnaður á vinnsludekki og öryggisbúnaður hafa verið endurbætt og fiskleitartæki uppfærð. Sömuleiðis hefur verið unnið að endurbótum í matsal og vistarverum skipverja, þannig að þetta er nokkuð stórt verkefni. Auk ýmissa verkþátta var um að ræða svokallaða fimm ára klössum, enda er Harðbakur fimm ára um þessar mundir,“ segir Guðmundur Ingvar Guðmundsson skipstjóri í færslu á vef Samherja.
Harðbakur var smíðaður í Vard-Aukra skipasmíðastöðinni í Noregi og kom til Akureyrar 9. nóvember 2019 og strax í kjölfarið tók Slippurinn við því, þar sem settur var vinnslubúnaður um borð. Harðbakur er 29 metra langur og 12 metra breiður. Um er að ræða nútímalegt fiskiskip með tilliti til veiða, vinnslu og aðbúnað áhafnar.
„Þetta er góður bátur til síns brúks og þessar endurbætur sem gerðar hafa verið eru um margt kærkomnar. Í lok vikunnar tökum við svo veiðarfærin um borð og prófum allt saman áður en alvaran hefst á nýjan leik,“ segir Guðmundur Ingvar sem hefur verið skipstjóri á Harðbak allt frá því að skipið kom fyrst til landsins fyrir fimm árum.
Í færslunni er haft eftir Bjarna Péturssyni, sviðsstjóra hjá Slippnum Akureyri, að endurbæturnar hafi verið vel undirbúnar og verkinu ljúki á næstu dögum.
„Lykilatriði er að undirbúa alla verkþætti sem best, enda margir sérhæfðir starfsmenn sem kallaðir eru til, bæði hérna hjá Slippnum og þjónustufyrirtækjum, auk starfsmanna Samherja. Þetta er mikil teymisvinna og allir leggjast á eitt um að skila góðu verki á umsömdum tíma,“ segir Bjarni.