Útflutningsverðmæti eldisafurða var um fjórðungi meira í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra og nam 4,6 milljörðum króna. Útflutningsverðmæti eldisafurða á fyrstu níu mánuðum er þá komið í 35,3 milljarða króna og hefur aldrei verið meiri.
„Það ætti nú að vera öllum ljóst að fiskeldi er nú þegar orðinn veigamikill liður í útflutningi Íslendinga og mun án nokkurs vafa verða enn fyrirferðarmeira þegar fram líða stundir. Sú þróun er afar jákvæð, enda eykur fiskeldi fjölbreytni í útflutningi og styrkir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélög víða um land. Það má heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að varanlegur vöxtur útflutningstekna er grundvallarforsenda sjálfbærs hagvaxtar og bættra lífskjara hér á landi,“ segir í greiningu Radarsins.
Þar er fjallað um nýjustu tölur Hagstofu Íslands um vöruskipti og er vakin athygli á því að um sé að ræða 23% aukningu útflutningsverðmæt milli ára miðað við fast gengi. Þá var útflutningsverðmæti eldisafurða tæp 14% af útflutningsverðmætum sjávarafurða á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 og 5% af öllum vöruútflutningi, en þessi hlutföll hafa aldrei verið meiri.
Þróunina má fyrst og fremst rekja til laxins að því er fram kemur í greiningunni.
„Þannig er útflutningsverðmæti eldislax komið í rúma 29 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hefur aldrei verið meira. Miðað við sama tímabil í fyrra er um 35% aukningu að ræða á föstu gengi. Einnig er veruleg aukning á útflutningsverðmæti Senegal flúru, sem er einn verðmætasti matfiskur í heimi. Þannig er útflutningsverðmæti hennar komið í rúma 1,3 milljarða króna á tilgreindu tímabili, sem er um 78% aukning á milli ára á sama kvarða.“
Samdráttur er hins vegar í útflutningsverðmætum silungs sem er að megninu til bleikja. Námu útflutningsverðmæti silungs á fyrstu níu mánuðum ársins 3,3 milljöðrum króna sem er 21% minna en á sama tímabili 2023.
„Þar hafa jarðhræringar og eldsumbrot í Grindavík sett strik í reikninginn. Þá er einnig töluverður samdráttur í útflutningsverðmæti frjóvgaðra laxahrogna, sem eru verðmæt hátækniframleiðsla. Útflutningsverðmæti þeirra nemur rúmum 1,4 milljarði króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er um 31% samdráttur frá sama tímabili í fyrra,“ segir í greiningunni.